Skýrsla formanns 2005

Árið 2005 var bara ansi öflugt hjá KAG. Það byrjaði með Hátíðar-tónleikum okkar tileinkuðum Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi, í Glerárkirkju. Einnig sungum við á málþingi í Ketilhúsinu. Þarna voru liðin 110 ár frá fæðingu Davíðs. Fjöldi fólks var þar viðstatt sönginn á báðum stöðum.

Á árinu gáfum við út geisladisk með lögum við texta Davíðs. Hét hann “Á Ljóðsins Vængjum”. Markmiðið var að heiðra minningu skáldsins og þannig leggja nokkuð af mörkum til að varðveita þann fjársjóð sem ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi eru. Ljóð hans hafa alla tíð skipað stóran sess í verkefnavali karlakóra ekki bara á Akureyri. Upptaka á geisladisk var gerð í febrúar og mars 2005.

Upptökur fóru fram í Laugaborg. Erla stjórnaði að sjálfsögðu, Diddi fiðla tók upp, Aladár var píanistinn, margir einsöngvarar lögðu til sína krafta, svo og hljóðfæraleikarar, og við sungum eins og englar!!!

Fullbúinn var diskurinn síðan í apríl 2005, en fullnaðarfrágangur eins og innpökkun er enn í gangi eftir þörfum. Sótt var um styrk til þessa metnaðarfulla verkefnis til Menntamálaráðuneytis, en ekki gekk það. KEA lét okkur hins vegar fá 500.000,- í styrk.

Þuríður Baldursdóttir raddæfði okkur og “tók hressilega til” í röddunum.

Aðalfundur KAG var síðan 3. mars 2005 og voru 27 kórfélagar mættir, sem sagt löglegur fundur. Björn Jósef stýrði fundinum, og gerði hann grein fyrir breytingu á fundarboði. Þar með féll út umræða um nafnbreytingu kórsins. Grétar Benediktsson, þáverandi formaður, flutti skýrslu stjórnar og kom víða við. Árið hafði greinilega verið skemmtilegt og pakkað… Gerðu menn góðan róm að skýrslunni og var klappað fyrir stjórn fyrir gott starf. Grétar tók síðan að sér að klára handriðið á svölunum alla leið ásamt Herði. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það. Sá, sem hér stendur, var síðan kosinn í formannsembættið. Ekki gerði ég mér grein fyrir því þá, hversu mikil vinna fylgdi embættinu, en lifi alla vega enn.

Æfingabúðir voru í Glerárskóla eins og undanfarin misseri.

Kaffihlaðborð héldum við í Lóni 17. 4. og græddum pening.

Vortónleikar KAG fóru fram í Glerárkirkju 28. og 29. apríl 2005. Ari, Keli, Óskar og Jóhannes sungu allir einsöng á þessum tónleikum. Gefin var út söngskrá sem borin var út með Dagskránni um allt stór-Akureyrarsvæðið. Skilaði hún mörgum peningum í kassann. Að kvöldi þess 29. apríl vorum við með nokkurs konar uppskeruhátíð í Lóni. Diskurinn frá og allir að komast í sumargírinn. Þar var Bjöndi settur í embætti SIÐAMEISTARA.

Söngferð til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar var farin 6. – 8. maí. Sungið var í Grafarvogskirkju 6. maí kl. 20:30, komum við á “Lansanum” og sungum þar á laugardeginum á leiðinni í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði, en þar voru tónleikar kl. 17:00. Þar buðu þrestir okkur velkomna með söng , og tóku síðan þátt í okkar síðustu 3 lögum. Aladár kom með og spilaði undir. Hans sólónúmer, sem var “Mínútuvalsinn” þótti mjög vel útfært. Þrestir buðu okkur í hreiðrið sitt um kvöldið. Þar var matur og drykkur fram borinn og menn gerðu sér glaðan dag allt til miðnættis.

Flestir gistu á Cabin. Mikið fjör var þar á laugardagskvöldinu eftir Þrasta-heimsókn. Undirritaður skildi gítarinn eftir í rútunni og var það heilmikil redding að ná honum um miðja nótt. Síðan var sungið og hlegið tímunum saman. Stór hópur Dana flæktist inn í gleðskapinn sem stóð langt fram á nóttu.

Karlakórinn tók að sér að greiða götu eistnesks kórs, NOORUS, sem var nokkurs konar strandaglópur í Leifsstöð fyrri part júnímánaðar. Sáum við um rútu fyrir þau, vorum með móttöku, redduðum gistingu, mat og morgunmat. Settum við upp tónleika með þeim í Glerárkirkju að kvöldi 13. júní, til að hafa upp í kostnað.

Ríkssjónvarpið var með 45 mínútna dagskrá að kvöldi 17. júní sl. þar sem flutt voru allmörg lög frá hátíðartónleikum KAG í Glerárkirkju. Við vorum flottir.

Sjómannamessa var sungin í Akureyrarkirkju á sjómannadaginn, og kvöldguðsþjónustu söng svo KAG í Glerárkirkju sunnudaginn 10. júlí kl. 20:30

Í sumar rann út samningur Erlu Þórólfsdóttur við kórinn og réðum við Michael Jón Clarke sem söngstjóra kórsins í júlí. Hann var byrjaður að vinna fyrir okkur áður en hann komst á launaskrá. Þá var einnig ráðin Helena Bjarnadóttir sem æfinga-píanisti. Vinna þau Mikki saman nánast sem einn maður.

Fljótlega var ákveðið að ráðast í það stórvirki að útsetja og æfa perlur Vilhjálms Vilhjálmssonar. Gengur það verk jafnt og þétt og vel. Verður búið til heildstætt skemmti-prógram úr þeim lögum næsta haust.

Kvöldguðsþjónusta var haldin í Glerárkirkju 24. júlí. Þar söng kórinn með Krossbandinu. Þessi uppákoma var eins konar leiga fyrir NOORUS-tónleikana.

Þá söng KAG við tvær jarðarfarir á árinu. Á Siglufirði við útför Sigurjóns Sæmundssonar, og jarðarför Ólafs Guðmundssonar í Akureyrarkirkju.

Í sumarbyrjun fékk kórinn sendar svartar bækur, sem innihéldu lög sem yrðu sungin á Landsmóti SÍK, kóramóti miklu sem halda átti í Hafnarfirði 29. október. Ákváðum við að taka þátt og orkan sett í að æfa stórvirkin.

Þegar dagurinn rann upp, fóru flestir saman í rútu, sem reyndar fékk ekki fararleyfi fyrr en klukkan að ganga fimm á föstudeginum. Upphaflegur brottfarartími var kl. eitt. Gekk allt þokkalega og hlaðborð beið eftir okkur í Borgarnesi, sem Svava vildarvinur okkar úr Vopnafirði græjaði. Gist var á Cabin í sömu litlu herbergjunum á hótelinu með stóra barinn. Samsöngur gekk að flestu leyti vel, en einhver talaði um að það hefði nú verið allt í lagi að taka “Kortes”-pásu. Eftir æfingar, mat á Kænunni, hafnfirskum matsölustað, tónleika og aftur tónleika var haldið að Ásvöllum, en þar beið okkar kvöldverður, skemmtidagskrá og dansleikur. Matarskammtar ansi vel úti látnir hjá flestum, töluvert drukkið sungið og ærslast. Þar voru menn líka heiðraðir fyrir ýmislegt. Þegar haldið var heim á hótel, var svo sem alveg vitað að ekki yrði farið að sofa. Þar var nefnilega líka Karlakór Dalvíkur og svo Thórshavnar Manskór, eiturhressir Færeyingar. Undirritaður hafði með sér gítarinn, minnugur síðustu ferðar, þar sem lá við að yrði að kaupa nýjan, og var síðan sungið og spilað fram á rauða morgun.

Í haust voru keyptir nokkrir sófar á tiltölulega góðan pening. Okkar gömlu sófar voru nánast ónýtir. Þá keyptum við loks píanóstól almennilegan, þannig að ekki þarf lengur að hlaða undir Helenu fögru frá Siglufirði. Þá er ekki úr vegi að geta þess að nokkrir kórfélagar hafa séð um að slá sameiginlegu lóðina norðan Lóns og allt út að Þingvallastræti, gegn því að Glófi sjái um snjómokstur í staðinn.

12. nóv. Sungum við á 5 ára afmæli Glerártorgs.

4. des. Vorum við með það sem við kölluðum: Jólin nálgast! Jóla-kaffi-hlaðborð með jólasöng og fjöldasöng þar sem Mikki, Helena og undirritaður spiluðu undir.

15. des. Var síðasta æfing fyrir jól. Fór hún fram í Bókval, Hafnarstræti og sungum við Jólalögin, sem aldrei fyrr.

16. des. Var síðan Jólahlaðborð og skemmtun kórfélaga og maka. Hangikjöt með tilbehör og smá skemmtiatriði, jólasaga, söngur og fleira. Hannes Blandon og Sara dóttir hans mættu á svæðið. Rólegt kvöld og notalegt.

Aðfangadagur var eins og alltaf: FSA kl. 13:45. Núna slógum við öll met og sungum á 6 stöðum í húsinu.

Man ekki eftir meiru Snorri Guð