Þann 17. maí 2010 var síðast haldinn aðalfundur Karlakórs Akureyrar-Geysis. Síðan hefur, eins og oftast undanfarin ár, hver
viðburðurinn tekið við af öðrum. Alltaf mikið að gera. Laugardaginn 29. maí tókum við á móti Kvennakór Öldutúns.
Hafði kórinn reddað þeim afbragð gistirými á Hótel KEA og að morgni laugardagsins fórum við með skvísurnar um borð í
Húna. Vorum reyndar kyrjandi einhverja ástarsöngva þegar þeim þóknaðist að koma niður á bryggju, þvældumst síðan
með þær um pollinn, syngjandi við undirleik harmonikku og gítars. Ekki höfðum við lengi siglt, er þær tilkynntu okkur að þær
þyrftu að komast í búðir. Jæja, eftir hádegið var sameiginleg æfing og tónleikar í Glerárkirkju. Sungum við m.a. með
þeim tvö lög: “Vel er mætt til vinafundar” og “Dómar heimsins”. Oft höfum við kunnað lögin okkar betur, en sem betur fer er
þetta eiginlega gleymt. Um kvöldið vildu dömurnar frekar horfa á Júróvisíjón á hótelinu en leika sér með okkur. Við
hefðum kannski bara átt að fara með þeim á hótelið. Hmmm.
15. júní sá KAG um veislu fyrir 40 ára júbílanta frá MA í Lóni. Fengu þeir hlaðborð frá Vídalín og
drukku þeir síðan vel og lengi. Skilaði kvöldið ágætis gróða og vonandi heldur sami hópur upp á 41. árs
stúdentsafmæli í sumar.
Þann 17. júní var sungið á torginu, samkvæmt samningi við Akureyrarbæ. Eftir það fengu menn að taka það rólega allt til
23. júlí, en þá voru nokkrir kórfélagar ásamt mökum kallaðir á dansæfingu og aftur þann 25., en nokkrum dögum
síðar brustu um 200 manns í dans í heilmiklum gjörningi, sem átti sér stað á Ráðhústorgi, sem sagt um verslunarmannahelgina.
Mikið flott og komst í sjónvarpsfréttirnar. Þann 1. ágúst sungum við svo “We Will Rock You” á flötinni neðan við
samkomuhúsið með klappi og öllu. Hljómsveitin Killer Queen spilaði undir og Magni nokkur Ásgeirsson var Freddie Mercury. Allt ætlaði vitlaust að
verða í brekkunum.
Akureyrarvakan var næst. Þann dag var menningarhúsið Hof opnað almenningi og óbreyttum. Karlakórinn hafði það hlutverk að syngja hér
og þar í húsinu frá níu að kvöldi og fram að miðnætti. Síðasta atriðið hjá okkur var ansi flott. Allir í
röð á kantinum sunnan við húsið, með meters millibili og með kyndla, og gátum ekki munað hvernig átti að endurtaka “Hofi” fimm
sinnum. Þetta kvöld vorum við líka beðnir um að taka þátt í Karnival-stemmningu í Listagilinu, en því miður –
uppteknir.
Æfingar byrjuðu óvenju snemma þetta haustið. Ástæðan var þátttaka okkar í Kötlumóti á Flúðum og mikið
efni, sem þurfti að læra. Fengum þar til gerða bók hver og einn. Inn á milli æfinga fundum við okkur samt tíma til að syngja fyrir Samband
íslenskra sveitarfélaga í Hofi, en þeir voru með landsfund þar 29. september.
16. október var svo Kötlumótið. Lögðum við af stað klukkan eitt frá Lóni, ef ég man rétt, komum örstutt við í
Reykjavík, rétt til að fá nafn kórsins í framrúðuna, og fórum síðan alla leið í Hveragerði til að borða
kvöldverð. Óli gamli Sjalla-kokkur galdraði fram rosalegt hlaðborð og held ég að flestir hafi verið saddir fram yfir mótið. Nú nú,
Karlakór Akureyrar-Geysir gisti að sjálfsögðu á Hótel Geysi. Mótið fór hið besta fram, við sungum afar vel, ekki bara að eigin
sögn, og vorum bara flottir. Risastórt mót með 15 kórum plús gestakór frá Finnlandi. Einn nýliði fór með okkur í
ferðina og hlaut þar sína eldskírn. Hann er ennþá með í hópnum.
Áður en lagt var af stað heim frá Hótel Geysi, reyndum við að endurgera mynd í Lóni, sem tekin er við Geysi fyrir margt löngu. Nú
var það Karlakór Akureyrar-Geysir við Strokk, en lítur samt fjári eðlilega út.
Viku eftir þetta mikla mót sungum við á kóradegi í Hofi. Var það í stórum dráttum sama prógram og á
Kötlumótinu, sem við kunnum vel, þannig að við rúlluðum því upp, þótt klukkan væri bara að ganga ellefu að morgni.
Við þetta tækifæri afhentum við Hofi til varðveislu hjálminn góða, sem allir skrifuðu nöfn sín á, þegar “fyrsti
söngur í Hofi” fór fram.Tókum við svo þátt í sameiginlegu lokalagi allra kóranna, sem komu fram þennan dag. Um þetta leyti
kom fyrrum félagi okkar Stefán Ólafsson og afhenti mér upptöku af mörgum tónleiku kórsins á videospólum. Nú er fyrirliggjandi
að láta færa það efni yfir á diska og fara svo að starta þessum bjórkvöldum sem alltaf er verið að tala um að koma á
fót í Lóni. Gott að geta fengið sér öl og horft á glæsta fortíðartónleika í nýju græjunum okkar í
salnum.
Snemma í nóvember tókum við þátt í styrktartónleikum Aflsins í Akureyrarkirkju, og þann 11. nóvember sungum við í
Ketilhúsinu, en þar var afmælisveisla í gangi. Matthías Jochumsson varð 175 ára. Ekki var hann beint viðstaddur, en samt allt í öllu
þetta kvöld. Þann 1. des var náttúrlega okkar árvissa jólakvöld, sem byrjar með konsert á Hlíð. Félagar, makar, eldri
félagar og eldri makar, gestir og prestur. Allt á sínum stað. Hangikjöt frá Eiði í Kjarnafæði, meðlæti, söngur og
bögglauppboð. Séra Svavar sagði okkur sannleikann um ferðalag kirkjuglugganna fallegu frá Coventry, sem enduðu í Akureyrarkirkju og allt var búið
fyrir ellefu.
Á þessum tíma vorum við farnir að æfa fyrir okkar stærsta jólaprógram kórsins hingað til. Við ætluðum sko að syngja
með Frostrósunum í Hofi. Illa gekk að fá nótur að lögunum og stundum komu leiðréttar nótur. Jafnvel skiptu lög um bæði
nafn og texta. Allt gekk þetta samt upp á endanum og við sungum 6 tónleika á þremur dögum. Gríðarlega skemmtileg fjáröflun og reyndar
komust færri að en vildu, því við komumst ekki allir fyrir í einu. Eftirpartý færðist upp í bæ og lauk undir morgun.
Söngur á Fjórðungssjúkrahúsinu var að þessu sinni mánudaginn 20. desember. Gamlársdagur var svo náttúrlega bara eftir
ritúalinu, Tekið á því í kring um bjórdæluna og svo tekið aftur á því í kring um flygilinn. Takk fyrir það
gamla!!!
Í desemberbyrjun barst bréf frá norskum kór, Manskoret Dovre frá Álasundi. Vildu þeir frændur okkar koma í heimsókn haustið
2011, en botninn datt einhverra hluta vegna úr þeim, þegar á reyndi. Ætla að koma seinna, sögðu þeir. Þá kom einnig fram hugmynd innan
kórsins um að hafa skötuveislu á Þorláksmessu fyrir þá félaga, sem vilja. Skoðum það eftir hálft ár og ég
mun sko mæta ef af verður.
Fyrsta æfing eftir áramót var 11. janúar. Gott jólafrí eftir törnina í desember. Félagi Tómas Guðmundsson taldi sig hins vegar
alveg getað notað meira frí og sagðist bara vera hættur og setti sjálfur Grétar barítón af BSA-gráðu inn í starfið.
Þegar Tommi hins vegar fór að eyða öllum kvöldum heima, sá hann að af tvennu illu væri líklega bara betra að halda bara áfram.
Mætti á ný, betri en nokkurn tíma og hirti kladdann af Grétari, sem var um það bil að komast inn í hlutina.
Nú var hins vegar tekið til við þunga, gamla tónlist, hálfgert torf. Mikil hátíð var plönuð í apríl kringum
stórafmæli tónskáldsins Björgvins Guðmundssonar og við þar með. Æfingarnar voru reyndar alveg að fara með kórinn og stefndi all
í að einungis yrði eftir kvartett eða svo, þegar tilkynning kom um að Björgvins- æfingar yrðu einungis á sunnudögum annað slagið. Menn
fóru aftur að brosa og kórinn dafnaði á ný. Þann 4. febrúar hjálpuðum við til á öldrunarheimilinu Hlíð við
að halda þorrablót. Menn fóru í litlum hópum á allar deildir og sungu þorralög ásamt undirleikara. Enn er verið að tala um
á Hlíð hvað þetta hafi tekist vel og við séum góðir, karlarnir í kórnum. Já, við erum góðir, betri og
bestir…
Sökum annríkis varð að slá “Hæ. Tröllum” mótið af að þessu sinni en verður að sjálfsögðu haldið
að ári. Þar sem Heklumót verður næsta vor er ekki líklegt að vel gangi að fá kóra nema þeir séu nálægt okkur,
þannig að hugsanlega verður þetta eins konar Eyjafjarðar-mót. Kannski, Eyfirðingar, Dalvíkingar og Siglfirðingar.
Frá mánaðamótum jan. – feb. var háæruverðugur stjórnandi okkar Valmar Väljaots í leyfi í hálfan mánuð,
því hann þurfti að taka þátt í vetrarólympíuleikunum, eða eitthvað svoleiðis. Held að Eistar hafi borgað undir hann
einhverra hluta vegna, sem ég skil ekki. Gunni Halldórs og Siggi Kristins raddæfðu mikið á þessum tíma og eiga inni koss frá okkur öllum.
Um þetta leyti er vorprógrammið líka að taka á sig einhverja mynd og hugmynd að kvartett kemur almennilega upp á yfirborðið.
Árshátíð KAG var haldin 12. mars og það var annar tenór, sem sá um veisluna að þessu sinni. Guðmundur Guðmundsson var dubbaður
upp í veislustjórann og allt gekk eins og í sögu. Mikið gaman og mikið fjör. Stubbarnir í Einum & sjötíu mínus einn, plús
Baddi Ring, sáu um ball eftir að dagskrá lauk.
Í apríl byrjuðum við á að hjálpa félaga okkar, Heimi Bjarna Ingimarssyni, barí-tenór. Sungum með honum í Hofi nokkur lög.
Tveimur dögum síðar sungum við yfir föllnum félaga okkar, Júlíusi Larsen, í Möðruvallakirkju og degi seinna voru svo
Björgvinstónleikarnir með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og okkur. Og reyndar fleirum líka. Stórvirki, sem ég er ekki viss um að
verði nokkurn tíma endurtekið…
Stuttu síðar var ákveðið að hafa myndatöku-æfingu. Stóð til að fara yfir fjörðinn á stórt bílastæði og
fá Akureyri í baksýn, en umræddan dag var bara ekki um neina baksýn að ræða þar. Brúin niðri á tanga varð fyrir valinu og
hafði ég konuna mína með til að festa okkur á filmuna. Seinni hluti myndatökunnar var svo í Glerárkirkju og meira svona hefðbundinn. Vont er
hins vegar að geta ekki náð öllum saman á svona mynd, sem fyrst og fremst er heimild um félagana hverju sinni.
Þann 14. maí voru sinfóníutónleikar í Hofi og hétu þeir: Danirnir koma!, en hópur ungra, danskra klassískra
hljóðfæraleikara var í heimsókn. Þar var kórinn náttúrlega mættur á pallana. Sungum við Finlandia með
sinfóníuhljómsveitinni og þessum ungu dönskum hljóðfæraleikurum. Tókst okkur þetta svo glimrandi vel að Guðmundur Óli
ætlaði aldrei að hætta að þakka okkur fyrir hjálpina.
Vortónleikar okkar voru svo dagana 20. og 21. maí í ár. Fyrir þá tónleika gáfum við að venju út söngskrá eina mikla,
seldum í hana auglýsingar, skrifuðum slatta og græddum helling. Gott mál, eins og tengdó segir gjarna. Fyrri tónleikarnir voru haldnir á
öldrunarheimilinu Hlíð og tókust bara vel. Þeir seinni voru svo í Glerárkirkju. Full kirkja af fólki gerir það af verkum að maður
fer afar glaður inn á svið og gefur allt í þetta. Óhætt er að segja að þetta hafi verið með bestu tónleikum okkar, alla vega
nýlega…
Eins og ég sagði í byrjun, var að venju mikið að gera hjá kórnum þennan veturinn og alltaf verður maður jafn hissa, þegar þetta
er allt talið saman. Einhvern heyrði ég nefna þennan vetur: Veturinn, sem við vorum að syngja fyrir aðra. Ég er ekki alveg viss um að ég skilji
þann pól í hæðina. Í fyrsta lagi var okkur boðin þátttaka í Kötlumóti fyrir sunnan. Það tók fyrsta hlutann af
æfingunum. Veit ekki hvort hefði verið eitthvað sniðugt að afþakka það glæsilega boð. Þá vorum við beðnir um að syngja
með Frostrósunum. Það lít ég á eins og góðan og skemmtilegan sponsor. Mun skemmtilegra en að selja klósettpappír til dæmis
og held að flestir ef ekki allir hafi verið ánægðir með þennan hluta og svo gaf það okkur helling af peningum, þegar upp var staðið.
Þegar við höfum sett upp jólatónleika eða sungið á Glerártorgi, höfum við vissulega líka þurft að æfa. Í
þriðja lagi vorum við KAG-menn beðnir um að taka þátt í Björgvins-hátíðinni. Á sínum tíma var
ákveðið að taka þátt í því. Önnur stjórn hefði kannski sagt nei, en við sögðum já. Alla vega held ég
að við ættum að standa saman í þessu, sem öðru og láta gamla góða karlakórshjartað slá duglega og í takt. Hins vegar
erum við nú þegar byrjaðir að vinna okkur í haginn fyrir utanlandsferð að ári. Stór hluti af vorprógramminu fer með okkur út og
er það vel. Eftir ár getum við leikandi farið möppulausir í þá ferð, sem verður örugglega ekki jafn mikið skipulögð og
Eistlandsferðin, sællar minningar..
Nokkrir nýliðar bættust í hópinn í vetur og eru þeir einhvern veginn þeirrar náttúru að manni finnst þeir alltaf hafa
verið þarna. Fyrir mér eru þeir náttúrlega miklar hetjur því þeir lifðu af langan vetur Þetta er bara þónokkuð svona
allt á sama árinu. Við getum svo sannarlega verið stoltir af nýliðunum sem hafa bæst í hópinn og svo líka bara okkur sjálfum…
Við erum náttúrlega bestir!!!
Held að best sé að hætta núna, áður en ég fer að bulla mikið meira…
Snorri Guð, formaður