Skýrsla formanns 2012

Laugardagurinn 21. maí, 2011, klukkan 15:00 hélt Karlakór Akureyrar-Geysir sína árlegu vortónleika. Þeir voru að venju í Glerárkirkju. Þessir tónleikar eru náttúrlega hápunktur starfsárs KAG, uppskera mikillar vinnu undanfarinna mánaða og veturinn gerður upp. Kvöldið áður hafði kórinn haldið konsert á öldrunarheimilinu Hlíð og er enn talað um þann konsert þar á bæ.

Á tónleikunum var afar fjölbreytt efnisskrá; klassísk karlakórslög í bland við íslensk og erlend sönglög. Einsöngvarar á tónleikunum voru þrír: Jónas Þór Jónasson, Erlingur Arason og Magnús Felixson. Þá söng kvartett skipaður félögum úr kórnum nokkur lög og skreytti það prógrammið mikið. Þar voru á ferð þeir Jónas Þór, Sigurgeir Sigurðar, Baldvin Aðalsteins og Þórólfur ofurbassi. Stjórnandi og undirleikari á tónleikunum var að sjálfsögðu Valmar Väljaots.

Aðalfundur KAG var haldinn í Lóni mánudaginn 23. maí. Eins og lög gera ráð fyrir, fóru fram "venjuleg aðalfundarstörf", skýrsla formanns lesin, skýrsla gjaldkera og féhirðis, kosningar í stjórn og fleira. Þá var rætt um Skotlandsferðina sem fyrirhuguð var sumarið 2012 og svo auðvitað önnur mál. Stjórnarkosningar voru með líflegra móti og ánægjulegt hve margir félagar buðu sig fram til ábyrgðastarfa fyrir kórinn.

Eftir kosningar voru stjórn og nefndir KAG þannig skipaðar:
Formaður var áfram Snorri Guð, ritari Hólmkell Hreinsson, Gjaldkeri Hinrik Þórhallsson, Hallgrímur Ingólfsson varaformaður og Gunnar Páll meðstjórnandi og stundum titlaður fjárhirðir. Varamenn voru svo Aðalbjörn Páls og Bjarni Gauta. Bjarni tók svo við embætti ritara um áramótin, þegar Hólmkell fór í frí. Lagavalsnefnd: Erlingur, Maggi Fel, Maggi Kristins, Baldvin, Valmar. Í nótnanefnd og ferðanefnd voru kosnir Magnús Ólafs, Björn Jósef og Snorri Guð. Húsnefnd er skipuð þeim Eggert Sigurjóns, Agli Áskels og Árna Jökli. Skoðunarmenn reikninga voru kosnir enn og aftur þeir Egill Áskelsson og Björn Jósef Arnviðarson. Ritstjórn heimasíðunnar okkar, kag.is er svo Ágúst, vefstjóri, Hólmkell og Snorri.

Að venju var sungið í messu í Glerárkirkju á Uppstigningardag og þannig kvittað fyrir að fá að nota kirkjuna fyrir vortónleikana okkar. Föstudaginn 24. júní var sungið á ráðstefnu um málefni norðurpólsins,sem haldin var í menningarhúsinu Hofi. Mætt var á æfingu í Lóni kl. 19:00 og sungið í Hofi kl. 20:10 í ca. 20 mínútur milli forréttar og aðalréttar hjá gestunum.

Þriðjudaginn 12. júlí var sungið við jarðarför Snorra Kristjánssonar bakara og fór athöfnin fram í Akureyrarkirkju. Laugardaginn 28. ágúst sungum við kórfélagarnir í þætti Margrétar Blöndal og Felix Bergssonar „Gestir út um allt“ í beinni útsendingu í Hofi. Ekki voru allar upplýsingar varðandi þennan atburð á hreinu, en upphaflega talað um að dreifa sér um salinn og halda uppi fjöldasöng. Versnaði heldur ástandið, þegar við áttum að mæta upp á senu og þrusa „Þú komst í hlaðið“. Það hefði bara verið gott mál ef Valmar stjórnandi hefði líka verið með okkur þennan dag á þessum stað og á þessari stundu.

Þann 19. sept. var síðan sungið við jarðarför Valgeirs Ásbjarnarsonar, líka í Akureyrarkirkju. Mættu kórfélagar vel í erfidrykkjuna í þetta skiptið, enda tveir synir Valgeirs í kórnum þá. Þann 30. september sungum við svo á tónleikum, sem nefndir voru: „Í minningu Sissu“. Sissa er yngsta barnið á Íslandi sem hefur látist eftir að hafa tekið of stóran skammt af eiturlyfjum. Minningartónleikarnir voru haldnir í Hofi. Þar var sungið lag eftir meistara Eric Clapton: Tears in Heaven.

Að kvöldi 2. nóvember söng KAG á árlegum styrktartónleikum Aflsins, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Fjöldi fólks var á tónleikunum, sem haldnir voru í Akureyrarkirkju. Margir listamenn komu þar fram og allir gáfu vinnu sína. KAG endaði prógrammið með þremur lögum og rak endahnútinn á skemmtilegt kvöld með hressilegum Hermannakór úr óperunni Faust!

5. nóv. ætlaði Karlakór Hreppamanna að vera með tónleika hér í Hofi. Voru þeir með dagskrá tileinkaða Franz Lizt, en um það bil 200 ár voru þá liðin frá frá fæðingu hans (fæddur 22. okt. 1811). Stóð til að við myndum syngja með þeim og halda svo veislu í Lóni á eftir. Þetta hrundi hins vegar allt saman eins og svo margt annað undanfarið ár.

19. nóvember hélt Kvennakór Akureyrar upp á 10 ára afmæli sitt. Var undirritaður veislustjóri hjá þeim stelpunum og kom KAG öllum að óvörum inn í skemmtiatriði þar í veislunni. Var mjög gaman að sjá áhrifin, sem þessi heimsókn hafði á KVAK-konurnar og eru þær enn að tala um þessa heimsókn.

Karlakór Akureyrar-Geysir var á meðal styrkþega úr Styrktar- og menningarsjóði KEA þann 23. nóv. árið 2011. Fékk kórinn úthutað 250.000 krónum úr styrkflokki ætluðum þátttökuverkefnum. Styrkurinn er ætlaður til tónleikahalds í tilefni af 90 ára afmæli kórsins. Afhendingin fór fram í Ketilhúsinu og var sungið við það tilefni að sjálfsögðu. Flestir hinna styrkþeganna voru enn á unglingsaldri og leið mér svolítið eins og afa gamla þarna í hópnum.

Fyrsti desember er alltaf stór dagur hjá okkur. Við byrjuðum veisluhöldin með því að halda jólatónleika á Hlíð fyrir eldri borgarana og nokkra fyrrum félaga okkar milli sex og sjö, en síðan var haldið í Lón. Hangikjöt frá Kjarnafæði að venju og kaffi og smá nammi á eftir. Séra Hildur Eir Bolladóttir var með þvílíkt uppistand að það gleymist seint. Rólegt kvöld að öðru leyti, eins og þessi hátíð á að vera.

KAG tók þátt í tónleikum Frostrósa á Akureyri á aðventunni og nú í annað sinn. Undirbúningur fyrir tónleikana stóð yfir í nokkrar vikur og árangur erfiðisins kom í ljós á glæsilegum tónleikum í Höllinni laugardaginn 17. desember. Nokkrir Fóstbræður fengu að vera með, enda búnir að syngja þetta prógram ótal sinnum fyrir sunnan. Gott að hafa þá með í öllum röddum. Þarna stigu á svið vel á annað hundrað tónlistamenn og sungu og léku fyrir fullu húsi, hátt í 2000 manns. Einsöngvarar á tónleikunum voru: Björg Þórhallsdóttir, Garðar Thor Cortes, Guðrún Árný, Hera Björk, Ína Valgerður, Margrét Eir, Matti Matt, Erna Hrönn, sem reyndar datt út á æfingu, Friðrik Ómar, Óskar Pétursson og Valgerður Guðnadóttir.

Kórarnir sem komu þarna fram, voru: Karlakór Akureyrar - Geysir, Vox Nordica, Kór Menntaskólans á Akureyri, Skólakór Hrafnagilsskóla, félagar úr Íslenska Gospelkórnum og Barnakór Frostrósa. Stórhljómsveit Frostrósa lék svo undir. Tónlistarstjóri var Karl O. Olgeirsson og stjórnandi Árni Harðarson.

Þá var einnig sungið í BYKO á síðustu metrunum fyrir jól. Sungin bæði rödduð og æfð jólalög og svo galvaskur fjöldasöngur með stæl.

31. desember var náttúrlega opið í Lóni, as usually. Ódýrasti bjórinn í bænum og fallegasti söngurinn í kring um flygilinn. Alltaf gaman að líta þarna við.

Fyrsta æfing eftir áramót var svo 9. janúar. Þar var haldinn góður fundur og fór formaður yfir starfið framundan. Þá ítrekaði Valmar að hann vildi sjá góða mætingu og hvatti menn til að taka vel á því næstu vikurnar. Árshátíð, sem átti að vera um miðjan febrúar var hins vegar frestað til vors.

Föstudaginn 10. febrúar tók kórinn okkar þátt í að sjá um fjöldasöng á þorrablóti á Dvalarheimilinu Hlíð, ásamt Kvennakór Akureyrar. Þessi söngur skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fólkið þar á bæ. Var skipt í hópa og farið inn á allar deildir með blandaðan sönghóp og einn spilara, sem annað hvort lék á harmonikku eða gítar. Í lokin var svo safnast saman niðri í matsal, en þar var samankomið fólk úr dagvistuninni. Eftir okkar góða tillegg til hátíðahaldanna var svo hefðbundin dagskrá, söngur og ball. Glatt á hjalla til rúmlega tíu, en þá er orðið mjög framorðið á Hlíð.

Þann 24. mars. héldum við mótið okkar „Hæ. Tröllum“ og það var mikið um dýrðir í Glerárkirkju. Eins og við vitum hefur Karlakór Akureyrar-Geysir staðið fyrir þessu móti allt frá árinu 2006. Hafa ýmsir kórar tekið þátt í því. Nafnið "Hæ! Tröllum" er fengið úr gömlu þekktu sænsku lagi, sem flestir karlakórar hafa sungið. Að þessu sinni voru þátttakendur mótsins; Karlakór Eyjafjarðar og Karlakór Siglufjarðar auk okkar sjálfra.  Má því segja, að nú höfum við heyrt í Eyfirðingum enda á milli. Karlakór Siglufjarðar komst í fyrsta sinn á malbiki alla leið í bæinn til að vera með okkur á mótinu og var ekki nema klukkutíma á leiðinni. Stjórnandi þeirra var Guðrún Ingimundardóttir. Karlakór Eyjafjarðar var hins vegar ekki nema nokkrar mínútur á leiðinni og Pál Barna Szabó stjórnaði þeim af öryggi. Fjallabræður ætluðu reyndar að vera með líka á þessu móti, en ekkert bólaði á þeim. Sömuleiðis klikkuðu bæði Dalvíkingar og Karlakór Selfoss.

KAG hefur um árabil tekið þátt í mottumars með virkum hætti. Selt skegg í Bónus og mikið af því á skeggsöludeginum mikla um land allt. Slógum náttúrlega sölumetið eins og venjulega og fengum í staðinn tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu um, að vortónleikarnir okkar yrðu teknir upp og afhentir á disk okkur að kostnaðarlausu. Verður gaman að eiga þá upptöku.

Við gerðum fleira mottutengt í mars, því Karlakór Akureyrar-Geysir söng í Mottuboði Klúbbs matreiðslumeistara á Norðurlandi og Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis sem haldið var í Hofi fimmtudagskvöldið 29. mars. Var það nokkuð fjölmenn skemmtun og gekk mikið á. Milli þess sem menn fylgdust með fjölbreyttri dagskrá, var smakkað á endalausum smáréttum, sem meistararnir báru mu salinn.

Fullt af hressum skemmtikröftum kom þarna fram, veislustjóri var „Fíllinn“ alræmdi og skemmti hann mönnum að venju. Flott framtak til styrktar krabbameinssjúkum.

Í apríl hafði samband við undirritaðan, fulltrúi fyrirtækisins Hreint ehf., en það er tæplega 30 ára gamalt íslenskt fjölskyldufyrirtæki sem sinnir ræstingaþjónustu út um allt land. Frá árinu 2007 hefur Hreint verið með starfsemi á Akureyri og nú starfa um 15 manns hjá fyrirtækinu hér í bæ. Sagði hann að Akureyringar hefðu tekið fyrirtækinu vel og því vilji forsvarsmenn þess gefa eitthvað til baka til samfélagsins hér nyrðra. Varð karlakórinn fyrir valinu hjá Hreint ehf og má því segja að við höfum lent í lukkupottinum, meira að segja án þess að taka þátt. Styrkurinn yrði svo afhentur við gott tækifæri fljótlega.

Í apríl var kúrsinn settur á Heklumót á Ísafirði. Fimm lög á prógrammi og fimm lög í sameiginlegan söng. Leist mönnum í fyrstu ekkert á öll þessi „lókal lög frá Ísafirði“. Sérstaklega var fussað yfir lagi Jóns Ásgeirssonar „Norður við heimskaut“. Hafði hann samið þetta lag fyrir einum tuttugu árum, en ekki gengið frá útsetningu fyrr en nú og gaf hann þetta lag til Heklumótsins. Síðan að ég kom í annan bassa, hefur lífið verið dálítið svona hefðbundið og oftast rólegt. Maður kumrar eitthvað þarna niðri í svartholinu. Í þessu lagi er allt annað uppi á teningnum. Það er hoppað og skoppað upp og niður neðri hluta tónstigans á fleygiferð og maður nær varla andanum fyrr en lagið er búið, svei mér þá. Algjör rússíbanareið og náttúrlega skemmtilegt eftir því.

Föstudaginn 20. apríl á mínútunni tíu var lagt í þetta langa rútuferðalag. Frábært veður og ekkert að færi. Fyrsta stopp var á Blönduósi og svo matarhlé í Staðaskála. Vökvaskipti hjá flestum, þ.e.a.s. tappað af og svo tappað á. Eftir það var farið allt norður til Hólmavíkur og litið þar við í kaupfélaginu. Smá hálkublettir voru á Steingrímsfjarðarheiði en mjög lítið. Næsta stopp var svo í Litlabæ í Skötufirði. Þar beið eftir okkur kaffi og vöfflur hjá þeim eðalhjónum Sigríði og Kristjáni. Ekki skil ég enn hvernig við komumst öll þarna inn og fengum sæti. Eftir viðurgjörninginn sungum við sunnan undir vegg fyrir þau hjón og kláruðum svo þennan síðasta klukkutíma til Ísafjarðar. Farið beint í Íþróttahúsið en allir kórarnir mættu þangað í smá fordrykk. Ernir voru að klára að ganga frá salnum um þetta leyti. Ótrúlega flott lausn á góðum söngpöllum hjá þeim Vestfirðingum. Síðan var farið í Tjöruhúsið en þar beið okkar fiskisúpa, sem Bjöndi hafði pantað hjá frænda sínum. Þar var náttúrlega sungið og svo farið á Bolungavík. Þar skyldi gist meðan á mótinu stæði. Ágætis hótel þannig lagað, að vísu svolítið dreift, en maður lærði alla vega fljótt á morgunmatinn.

Mótsdaginn sjálfan voru allir klárir klukkan hálf tíu, en hálftíma síðar voru sameiginlegar æfingar allra kóranna. Makarnir sendir í skoðunarferð á meðan. Gekk æfingin vel og nógur tími til að fá sér næringu og skipta um föt á eftir. Hörður Högnason opnaði mótið, en hann var formaður Heklumótsnefndar þeirra Ernismanna. Mótið gekk síðan afar vel fyrir sig, hnökralaust og bara leið einhvern veginn áfram. Við vorum næstsíðastir og stóðum okkur að sjálfsögðu rosa vel miðað við aðstæður, með nýjan stjórnanda og undirleikara, sem hafði aldrei spilað með okkur áður. Aladár og Palli Zabó voru frábærir. Stuttu síðar drundi sameiginlegi söngurinn um allt hús og gestir tóku andköf, Slíkur var styrkurinn. Ég stóð mig að því að vera ekki að horfa á stjórnanda akkúrat þá, heldur upplifði „mómentið“ með áhorfendum, sem stóðu allir upp í lokin og ætlaði fagnaðarlátunum aldrei að linna. „Norður við heimskaut“ var endurtekið, en „Þú álfu vorrar geymt til kvöldsins.

Eftir sönginn var farið heim á hótel og menn gátu slappað aðeins af og hlaðið batteríin. Tilbúnir í seinni hálfleikinn. Hver kór fékk sitt borð eða svæði í veislusalnum og vorum við á góðum stað, frekar miðsvæðis, en samt nær barnum. Alveg snilld. Undirritaður flutti stutta þakkarræðu fyrir hönd Heklunefndar til Ernis fyrir að hýsa mótið og leysa verkefnið með stæl. Töluvert var af skemmtiatriðum frá kórunum og meðal annars söng hinn frábæri hópur Raddbandafélag Reykjavíkur og Ernir sjálfir með heila óperu fyrir viðstadda. Okkar atriði voru fleiri og að sjálfsögðu betri en flestra annarra. Kvartettinn söng nokkur lög og stóð sig vel. Þá tróð Sigurður Þengilsson upp og tók útgáfu Höllu Margrétar af „O, sole mio“ frá síðasta Heklumóti. Var hann gersamlega ofandottinn eftir að hafa heyrt þetta í rútunni á leiðinni vestur og lagið greinilega ofarlega í huga hans. Menn á mótinu föttuðu strax hvað verið var að gera og var mikið hlegið að tiltækinu.

Formaður SÍK, Geir Guðsteinsson, flutti ræðu og sæmdi þónokkra aðila gullmerki Sambands Íslenskra Karlakóra, meðal annars undirritaðann. Fylgdu þær leiðbeiningar að alltaf skyldi bera merkið þegar sungið væri á tónleikum. Að lokinni dagskrá var dansleikur inn í nóttina, en líklega allt búið að mestu um tvöleytið.

Lagt var af stað heimleiðis um tíuleytið á sunnudagsmorgni og ekki stoppað fyrr en hjá selunum við Litlabæ. Eftir það ekið til Hólmavíkur í smá matarstopp, síðan í Staðaskála og loks Varmahlíð. Heim að Lóni renndum við um klukkan átta, ef ég man rétt. Frábær ferð að baki og mun örugglega skilja eftir margar góðar minningar hjá þeim, sem þátt tóku.

Næsta stóra verkefni var að koma frá okkur hinni árvissu söngskrá og tókst ágætlega að fylla hana. Var hún svo yfirfull að einsöngvarinn Björn Jósef datt útbyrðis og var settur á sér miða til að komast inn aftur. Skráin var borin í öll hús í Eyjafirði og sömuleiðis á Húsavík. Eggert hélt utan um skrána að þessu sinni.

Nú var ekkert eftir nema taka kúrsinn beint á vortónleika, sem yrðu haldnir helgina 4. til 6. mars. Var á endanum ákveðið að byrja með styttri útgáfu á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hlíð klukkan hálf sjö á föstudegi. Þar voru félögum afhent ný barmmerki kórsins, sem ég held að megi segja að séu með þeim flottari. Þá fengum við einnig, við það tækifæri, afhentan 200.000,- króna styrk frá ræstingafyrirtækinu Hreint ehf. Vortónleikarnir okkar í Glerárkirkju á laugardeginum gengu afar vel og var dálítið um óvæntar uppákomur þar. Gunnar Páll kvað, eins og sagt var á stjórnarfundi fyrir nokkrum árum og olli smá misskilningi þá. Einnig tóku tenórarnir sig til og lengdu lagið „Undir stjörnum“. Þá voru félagar í kórnum sjálfir með kynningar á lögum og er það skemmtileg hefð, sem vonandi lifir áfram.

Á sunnudeginum var farið í rútu til Siglufjarðar. Þar skyldu haldnir tónleikar með Kvennakór Akureyrar og Karlakór Siglufjarðar. Lagt af stað klukkan tólf frá Lóni og tónleikar byrjuðu klukkan þrjú. Töluvert af fólki mætti á tónleikana og gekk allt eftir áætlun. Kórinn, einsöngvarar og kvartett stóðu sig vel og eins og alltaf eftir svona samsöng var mikið talað um að gera þetta miklu oftar. Eftir sönginn var farið niður á Rauðku, þar sem beið okkar kjúklingasalat, súpa, brauð og kaffi. Og svo náttúrlega opinn bar. Komið var heim laust fyrir átta og held ég að óhætt sé að segja að allir hafi verið ánægðir með ferðina.

Í vetur tókst enn og aftur að semja við bæði Roar Kvam og Tónlistarskóla Eyjafjarðar og vonandi gengur það áfram einhver ár. Þá komst á fast að afhenda merkis-afmælis-börnum í kórnum flösku af White Horse viskíi, en ekki er ég viss um að allir hafi fengið sína ennþá. Þá færði Sigfús nokkur Ólafsson, fyrrum stjórnandi karlakórs Selfoss, okkur nótur af tíu lögum eftir hann sjálfan. Við höfum verið beðnir um að syngja eitt lag á plötu, sem verður tekin upp í sumar hér á Akureyri. Bragi Bergmann sér um það og tengist þessi plata Krabbameinsfélaginu. Verður örugglega haft samband vegna þess þegar þar að kemur og þeir koma, sem komast.

Lagt var upp með breytt fyrirkomulag æfinga í vetur. Áttu tvær og tvær raddir að fá frí annað slagið. Held að við höfum ekki náð einni slíkri æfingu. Ef til vill verður hugmyndin þróuð eitthvað áfram hjá næstu stjórn, en það kemur í ljós síðar. Þá eru rafrænar nótur komnar inn á lokað svæði á heimasíðunni okkar og er það gríðar góð viðbót. Hver og einn getur þá í raun æft sig heima, þegar honum hentar sjálfum og getur haldið dampi, þó viðkomandi missi af æfingu. Ekki má gleyma að konurnar í Kvennakórnum vilja gjarna fá að vera áfram í eldhúsinu, þegar veislur eru hjá okkur. Þeim finnst þær skulda okkur fyrir einstaka sunnudagsæfingar, sem þær hafa fengið að vera með í Lóni. Gott fyrir alla og kostar okkur ekkert.

Þá getum við sagt að komið sé að öðrum málum:
Félagsgjöld var ákveðið að hafa óbreytt þennan veturinn. Við erum orðnir langt á eftir öðrum kórum með þessa hluti og verður að fara að hreyfa eitthvað við því. Fyrir heilan vetur hjá okkur nær fólk ekki einni önn annars staðar. Þýðir ekkert að bera sig saman við kirkjukóra, eins og ég hef áður sagt. Þar er allt frítt; kórstjóri, húsnæði, æfingar o.s.frv. Verst er samt að enn eiga nokkrir eftir að borga sín gjöld og finnst mér það bæði til skammar og alveg með ólíkindum. Þessi menn fá samt alla þá þjónustu hér, sem við hinir fáum og erum búnir að borga fyrir. Og fyrst ég er kominn í þennan gír, er líklega best að nefna mætingarnar í leiðinni. Held að aldrei hafi verið sama áhöfn á tveimur æfingum í allan vetur og segir það líklega allt, sem segja þarf. Menn vita sjálfir hverju slíkar æfingar skila. Látum þetta duga um það.

Þessi ár, sem ég hef verið formaður, hafa verið mér mikils virði og yfirleitt mjög skemmtileg. Ég hef ekki talið eftir mér að vinna fyrir þennan mjög svo skemmtilega og gefandi félagsskap, sem við eigum hér í Lóni. Það er mikil ábyrgð en líka mjög gaman að vera í stjórn og þið hefðuð allir gott af því að prófa það. Mun ætíð minnast þess tíma með gleði. Nú er hins vegar komin einhver þreyta í mig og þá er best að hætta. Þar með þakka ég ykkur öllum fyrir mig og vona að ykkur gangi allt í haginn á komandi árum með nýja stjórn, nýjan formann og nýjan stjórnanda. Og sömuleiðis að þið verðið áfram  „Syngjandi sælir“...

Snorri Guð, fráfarandi formaður