Það er óhætt að segja að það starfsár sem við erum að gera upp á þessum aðalfundi hafi verið fjölbreytt. Við fórum víða og sungum mikið - sem betur fer. Og eins og undanfarin ár vorum við búnir að syngja nokkuð áður en formlegar æfingar hófust í haust. Söngur við brúarvígslu í innbænum og í Listigarðinum á Akureyrarvöku. Og við byjuðum haustvertíðina snemma, en 4. september héldum við af stað.
Við höfðum rúman mánuð til að æfa fyrir mjög skemmtilega tónleika – Við eigum samleið. En þegar kom að þeim tónleikum stóðum við skyndilega uppi stjórnendalausir. Eftir talsvert stress og snöggar ákvarðanir gerðum við bráðabirgðasamkomulag við Steinþór Þráinsson, sem áður hafði bjargað okkur við svipaðar aðstæður.
6. október sungum við svo í Hofi með þeim Guðrúnu Gunnarsdóttur, Jógvan Hansen og Sigríði Beinteinsdóttur. Og þar hófst samstarf sem sér ekki fyrir endann á og verður tekið upp aftur næsta haust. Þau hafa bókað okkur með sér á tónleika 20. september. Og framhaldið með Steinþóri þekkjum við og það hefur gengið aldeilis ljómandi vel. Og heldur áfram.
3. nóvember var það söngurinn í Mosó, ferð í höfuðborgina til að taka þátt í kóramóti með Karlakórnum Stefni og Kvennakór Suðurnesja. Snörp lægð með hávaðaroki truflaði suðurferðina þar sem úthringingar klikkuðu eitthvað og sumir voru skildir eftir heima. En skiluðu sér samt sem betur fer!
Desember er mánuður hefðanna hjá okkur. Hangikjötskvöld, Jólasöngvar á Hlíð, Lögmannshlíð og Sjúkrahúsinu og hittingur í Lóni á Gamlársdag. Aftur líður starfsár án jólatónleika og ég geri það hér með að tillögu minni að við höldum jólatónleika á næsta starfsári.
Fyrsta æfing á nýju ári var 8. janúar og mánuði síðar létum við loksins verða af því að halda opna æfingu. Það var á Götubarnum, mjög skemmtilegt kvöld þar sem margir bæði hlustuðu og sungu með! Og opna æfingin tókst það vel að við vorum umsvifalaust ráðnir sem verktakar við opnun á splunkunýju eggjabúi hjá Arnari og Ástu á Hranastöðum. Um miðjan mars sungum við svo á Mottumarshátíð í Hofi. Kórinn á mjög gott samstarf við vinkonur okkar hjá Krabbameinsfélaginu á Akureyri og þessi þátttaka okkar í Mottumars er skemmtileg og gefandi.
Árshátíðin var á sínum stað undir öruggri stjórn fyrsta bassa, sem reyndi að vísu að koma árshátíðinni af sér. En það mistókst og þeir stóðu sannarlega sína plikt og gerðu þetta með stæl. 6. apríl settumst við upp í rútu og héldum til Grenivíkur og æfðum þar heilan laugardag. Þar buðum við heimamönnum að kíkja á æfingu og hlusta á nokkur lög. Svona æfingadagar eru afar mikilvægir og næst verður mætingin að vera betri.
Í apríl þáðum sungum við aftur með vinum okkar í Karlakórnum Stefni og í þetta sinn á tónleikum í Akureyrarkirkju. Þar sungum við smá sýnishorn af vortónleikunum sem þá voru handan við hornið. Lokaæfing fyrir þá og rennsli var í Glerárkirkju 3. maí og sjálfir vortónleikarnir 4. maí. Þeir fyrstu í röðinni af þremur. Og kórinn hefur ekki hljómað betur í mjög langan tíma!
Þetta vor fórum við þá leið að syngja rammíslenska efnisskrá, lög og texta eftir íslenska höfunda. Þetta vakti verðskuldaða athygli og mér fannst allavega gott að komast aftur í heðbundið lagaval og rótgróin karlakóralög. Sem samt var kannski ekki svo hefðbundið því við vorum að syngja lög sem heyrast ekki alltaf sungin í kórútsetningu, frekar sem einsöngslög eða sungin í kvartett. Og einsöngvararnir okkar voru flottir!
En nú eiga flestir okkar frábærar minningar úr söngferð austur á land. Eða eins og einhversstaðar var skrifað; 15 tímar, 600 kílómetrar, tvennir tónleikar og flottar móttökur á Egilsstöðum og Vopnafirði. Og kótiletturnar í Kaupvangskaffi toppuðu túrinn! Eða var það kannski kveðskapurinn og rútusöngurinn? Eða pissustoppin, sem Tommi okkar gamli söngbróðir sagði að hefðu heitið tæknistopp í hans tíð með kórnum. Magnaður endir á frábæru söngvori og aldeilis stórskemmtileg ferð! Prógrammið er reyndar er ekki alveg á enda, því við eigum að syngja í Húsasmiðjunni á laugardaginn og svo er árlegur messusöngur í Glerárkirkju á uppstigningardag 30. maí.
Kæru félagar, það er fjölbreytt og afar gott starfsár að baki. Mætingin í vetur og vor hefur verið talsvert betri en undanfarin ár, skipting í raddir er orðin jöfn aftur sem betur fer. Það hafa verið að mæta upp í rúmlega 50 kallar á æfingar og það er afar góður og þéttur hljómur í kórnum. Þökkum Steinþóri fyrir það! Ennþá erum við samt að enda færri á pöllum á vortónleikum en á æfingum. Ég nenni eiginlega ekki að röfla um það eitt skiptið enn, en ef við segjum að 53 hafi verið að æfa þegar mest var, þá hurfu tíu af þeim fyrir fyrstu vortónleika og tuttugu af þeim vantaði í söngferðina austur á land.
Hér á eftir ræðum við kórstarfið frá ýmsum hliðum og ég hvet ykkur til að taka þátt í þeirri umræðu. Á næsta starfsári er Hæ Tröllum kóramótið okkar og við skulum stefna að því að syngja vortónleika fyrr en núna. Vonandi tekst okkur að syngja 18. eða 25. apríl, vel fyrir sauðburð og fleiri nauðsynleg vorstörf. Og svo er aðeins búið að ræða utanlandsferð í beinu flugi frá Akureyri. Við heyrum betur af því undið liðnum önnur mál.
Ég vil fyrir hönd stjórnar Karlakórs-Akureyrar-Geysis, þakka ykkur frábært samstarf og góðan félagsskap á starfsárinu. Stjórnarmenn, kærar þakkir fyrir ykkar framlag. Það líður að því að við höldum upp á 100 ára afmæli þessa kórstarfs, eða 2022. Sjálfsagt að byrja að legga drög að því afmælishaldi á komandi starfsári. Karlakór Akureyrar-Geysir er rótgróið tónlistarfélag og nýtur virðingar, höldum því á lofti með stolti!
Að þessu sögðu læt ég þessari yfirferð yfir starfsárið lokið – takk fyrir mig!
Ágúst Ólafsson, formaður KAG.