„Íslands þúsund ár!“

KAG á tónleikum. Mynd: Kristjana
KAG á tónleikum. Mynd: Kristjana
Eins og segir í fréttinni hér á undan (neðan) heldur Karlakór Akureyrar-Geysir tvenna vortónleika að þessu sinni. Í Bergi á Dalvík og Hofi á Akureyri.


Íslensk tón- og ljóðskáld hafa um áraraðir mótað tónlistarlíf íslensku þjóðarinnar. Þessi skáld eiga því mörg af þeim lögum og ljóðum sem okkur þykir vænst um. Þar á meðal eru flest þekktustu verk sem flutt eru af íslenskum karlakórum.

Þessu vilja félagar í Karlakór Akureyrar-Geysi halda á lofti og því eru öll verkin á vortónleikunum eftir íslenska höfunda. Og margar gullvægar hendingar eru í ljóðum þessara laga.

„Hver á sér fegra föðurland, með fjöll og dal og bláan sand.“
„Ísland, Ísland, eg vil búa alla stund í faðmi þér.“
„Ég heyri mál, sem hljómar hreint og hvellt sem stál. Það er vort móðurmál.“
„Á meðan sól að morgni rís og máni silfrar jökulís.“
„Það er óskaland íslenskt, sem að yfir þú býr.“


Að syngja þessar hendingar við tignarleg lög íslensku stórskáldanna er magnað. Enn skemmtilegra er samt að heyra þessi lög flutt af karlakór. Enda voru mörg af þessum verkum sérstaklega samin fyrir karlakóra. Þá ríkti gullöld þessa samspils skáldanna og karlakóranna. Enn þann dag í dag er verkunum haldið á lofti.

Á vortónleikunum bregða kórfélagar sér í ýmis hlutverk og stíga fram í einsöng og tvísöng. Einsöngvarar verða þeir Jónas Þór Jónasson og Þorkell Pálsson. Tvísöng syngja annars vegar Magnús Felixson og Sigurður Kristinsson og hinsvegar Björn Pálsson og Þorkell Pálsson. Þá verður KAG kvartettinn auðvitað á sínum stað.