Laugardaginn 1. nóvember verður haldið Heklu-mót á Húsavík.
Hekla, samband norðlenskra karlakóra stendur fyrir þessu móti fjórða hvert ár og er þetta hið sautjánda
í röðinni. Þessi mót eru algjör veisla fyrir áhugafólk um kórsöng. Hver kór fyrir sig syngur þrjú lög og
síðan syngja allir kórarnir saman fimm lög.
Þátttakendur í mótinu að þessu sinni eru: Karlakór Akureyrar - Geysir, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, Karlakór
Dalvíkur, Karlakórinn Drífandi á Fljótsdalshéraði, Karlakórinn Ernir á norðanverðum Vestfjörðum, Karlakór
Eyjafjarðar, Karlakórinn Heimir í Skagafirði og gestgjafarnir að þessu sinni, Hreimur á Húsavík.
Heklu-nefnd fékk Guðmund Óla Gunnarsson til að semja nýtt lag fyrir þetta mót og ber það heitið "Þú, sem eldinn átt
í hjarta". Textann gerði Davíð Stefánsson. Þarna verður sem sagt um frumflutning að ræða á nýju íslensku tónverki sem
samið er fyrir karlakóra. Vel á þriðja hundrað manns munu taka þátt í flutningnum.
Mótið verður haldið í Íþróttahúsinu á Húsavík og hefst klukkan 14:00.