Stjórn skilaði skýrslu sinni eftir þetta einstaka og óútreiknanlega starfsár - með Covid-pláguna allt um kring. Engir venjubundnir tónleikar voru sungnir þetta árið og ekki gafst heldur tækifæri til ferðalaga eða félagsstarfs.
Framundan eru merkileg tímamót þar sem árið 2022 eru 100 ár liðin frá stofnun Karlakórsins Geysis og þannig tækifæri til að fagna samfelldu karlakórastarfi frá þeim tíma.
Önnur timamót eru einnig framundan þar sem Karlakór Akureyrar Geysir kveður félagsheimilið Lón 1.júní næstkomandi.
Lög Karlakórs Akureyrar Geysis voru samþykkt með minniháttar breytingum og nýjar "drengskaparreglur félaga" voru samþykktar í stað eldri "siðareglna"
Stjórn kórsins og varastjórn var endurkjörin og nefndir og embætti lítið breytt.
Tvisvar sinnum var blásið til æfinga ca fjórar vikur í hvort skipti - með varúðarviðminum og smitvörnum í samræmi við fyrirmæli yfirvalda.
Þar sem Lón við Hrísalund, félagsheimili KAG til lengri tíma, hefur nú verið selt þá var þetta að líkindum síðasti aðalfundur sem þar fer fram.
Nýir eigendur taka við 1. júni 2021 - en þar mun Hjálpræðisherinn á Akureyri reka sína starfsemi framvegis.
Næsta starfsár mun KAG æfa í kennslusal Rauða Krossins við Viðjulund og halda þar annað reglubundið félagsstarf sitt.
Kórfélagar eru almennt áfram um að fá framtíðaraðstöðu í Menningarhúsinu Hofi - helst bæði til æfinga og tónleikahalds - á þeim kjörum sem kórstarfið ræður við.
Næsta ár mun stjórn KAG leita eftir samkomulagi um aðgang kórsins að Hofi - en jafnhliða mun að sjálfsögðu verða leitað leiða með kaup eða lengritímaleigu á hagkvæmu húsnæði þar sem æfingum og félagsstarfi kórsins mætti koma vel fyrir.
KAG er eftir sem áður opinn fyrir samstarfi við aðra tónlistahópa um kaup/rekstur hentugs húsnæðis til æfinga og félagsstarfs - og helst þar sem mætti halda minni tónleika.
Vonandi linnir plágunni senn og félagsstarf og samkomur komist í eðlilegt horft fyrir haustið. Framundan er það mikilvæga verkefni að halda upp á 100 ára karlakórafmæli - með "Stórtónleikum" á vori 2022 og fleiri metnaðarfullum verkefnum og miðlun á nýjum og eldri upptökum af karlakórssöng á Akureyri.
Vorhreingerning í Lóni verður umfangsmeiri en venjulega að þessu sinni - og safnast félagarnir saman til að rýma geymslur og flokka verðmæti og gögn - flytja á söfn eða í varanleg skjól helstu verðmæti en farga hinu sem hefur safnast upp til minni eða engrar ánægju.
Benedikt formaður 12.maí 2021