Aðalfundur Karlakórs Akureyrar-Geysis var haldinn þriðjudaginn 9.maí 2023.
Á fundinum flutti formaður Benedikt Sigurðarson skýrslu stjórnar fyrir starfsárið sem er við lok og gjaldkeri Sigurður Harðarson lagði fram reikninga ársins 2022.
Árið 2022 var að miklu leyti tileinkað 100 ára afmæli samfellds karlakórsöngs á Akureyri, en karlakórinn Geysir var stofnaður 1922. Karlakór Akureyrar var stofnaður 1929 og sameinaðir hafa kórarnir starfað síðan 1990.
Kórstarfið fór að mati formannsins ótrúlega vel af stað eftir Covid-lokanir og skilaði sér í tvennum tónleikum í Hofi 2022 og kórferð á Snæfellsnes á vordögum 2023 – auk vortónleika í Akureyrarkirkju 22. Apríl. Amælistónleikar 12. Nóvember voru stærsti viðburður ársins og í samhenginu var bæklingi dreift í hús í bænum með örlítilli upprifjun af karlakórastarfi í 100 ár.
Kórinn kom fram við allmörg tilefni; á Akureyrarvöku, við heiðursviðurkenningu Hr.Ólafs Ragnars Grímssonar í Háskólanum á Akureyri og við afmæli Glerártorgs, á afmælistónleikum EBAK og við úthlutun styrkja KEA. Sungnir voru nærri heilir tónleikar á dvalarheimilum eldri borgara. Og auk þess var sungið á kaffihúsum og Glerártorgi fyrir jólin.
Á miðjum febrúar var tekinn „söngdagur með gleðibragði“ í Glerárkirkju – í samstarfi við Karlakór Eyjafjarðar. Vortónleikar í Akureyrarkirkju tókust prýðilega og næsta „æfing“ á eftir - sem var þá síðasta æfing ársins - varð gestasöngur hjá Söngfélaginu Sálubót í Glerárkirju 25.apríl.
Stjórnandi KAG liðið starfsár er Valmar Valjaots og mun hann halda áfram með kórnum.
Fjárhagslega var afkoma ársins 2022 ekki sérlega góð; félagið var gert upp með rekstrartapi upp á nær 6 milljónir. Eignir félagsins eru rúmlega 60 milljónir við síðustu áramót.
Afkoman skýrist að hluta til í eftirköstum Covid-plágunnar, en einkum þó af því að félagið stofnaði til umtalsverðs kostnaðar við 100 ára afmælishaldið - ma. með tvennum tónleikum í Menningarhúsinu Hofi. Eins var ekki unnið sem skyldi að því að afla styrkja og stuðnings frá velvildaraðilum. Aðsókn að tónleikum kórsins var heldur ekki eins metnaður KAG hlýtur að standa til.
Á fundinum var rætt um aðstöðu til tónleikahalds og óheyrilegan kostnað af nýtingu Menningarhússins fyrir áhugamannafélag eins og KAG Einnig var rætt um nýliðunarvanda sem gerir kórstarfinu erfitt að endurnýja sig og viðhalda nægum fjölda virkra söngmanna. Karlakór Akureyrar-Geysir ætti að hafa á að skipa 45-55 söngmönnum á hverjum tíma svo vel væri - og geta boðið upp á fjölbreytni með einsöngvurum og tvísöng/kvartettum við mismunandi tilefni. Mikið var rætt um tónleikahaldið, verkefnavalið og kynningarmál kórsins.
Í gangi er könnun á ferðavilja og óskum félaganna en búið var að áætla söngferð til útlanda árið 2024. Ferða og viðburðarnefnd vinnur með stjórn að því að leggja línur í sem bestu samræmi við þær óskir sem félagar láta í ljós þannig að unnt verði að taka formlegar ákvarðanir og hefja beinan undirbúning frá september-október næstkomandi.
Umræður á fundinum voru málefnalegar og frjóar ný stjórn hefur veganesti til að vinna með í undirbúningi næsta árs.
Fundarstjóri á fundinum var Arnar Árnason.
Nýir menn í Stjórn KAG voru kjörnir á fundinum Wolfgang Frosti Zahr og Svavar Alfreð Jónsson og í varastjórn hlutu kjör þeir Magnus Hilmar Felixson og Árni Jökull Gunnarsson.
Aðrir stjórnarmenn eru Benedikt Sigurðarson formaður, Svveinbjörn Pálsson og Hallgrímur Stefán Ingólfsson