Laugardagurinn 17. nóvember var stór dagur hjá félögum í Karlakór Akureyrar-Geysi! Þá hélt kórinn stórtónleika í menningarhúsinu Hofi á Akureyri tilefni af 90 ára sögu kórsins. Og það var mikið um dýrðir!
Stórtenórinn og einn fremsti tónlistarmaður Akureyrar fyrr og síðar, Kristján Jóhannsson, söng einsöng með kórnum.
Þá söng með kórnum Örn Viðar Birgisson, frændi Kristjáns og mikill tenór! Einnig komu fram félagar í KAG, þrír sterkir tenórar; Jónas
Þór Jónasson, Birgir Björnsson og Sigurður Þengilsson. Þá söng tvöfaldur kvatrett skipaður félögum úr
KAG.
Tónlistarstóri þessarar miklu afmælishátíðar var Hjörleifur Örn Jónsson, sem tók við sem stjórnandi KAG á
þessu ári. Hjörleifur útsetti m.a. undirleik fimm manna hljómsveitar sem lék undir með kórnum. Hljómsveitina skipuðu; Risto Laur á
píanó, Marcin Lazarz á fiðlu, Páll B. Szabo á fagott, Pétur Ingólfsson á kontrabassa og Emil Þ. Emilsson á
slagverk.
Um kynningu og dagskrárgerð sáu þeir Ívar Helgason og Gísli Sigurgeirsson, en á tónleikunum var rakin saga Karlakórs Akureyrar-Geysis
í máli og myndum. Kórinn var myndaður úr tveimur
kórum; Karlakórnum Geysi og Karlakór Akureyrar. 90 ára saga þessa starfs er rakin til stofnunar Geysis árið 1922. Karlakór Akureyrar var
stofnaður skömmu síðar, eða 1929. Kórarnir voru sameinaðir árið 1990. Tónleikarnir voru byggðir upp þannig að sungið var lag fyrir hvern áratug
í þessari 90 ára sögu, á milli þess sem flutt voru minningabrot.
Tónleikarnir tókust frábærlega vel! Uppselt var í Hofi, ríflega 500 manns mættu þrátt fyrir leiðindaveður og
ófærð. Óhætt er að segja að þetta stóra verkefni hafi verið mikil hvatning fyrir félaga í Karlakór
Akureyrar-Geysi!