Hjörleifur Örn Jónsson, skólastjóri
Tónlistarskólans á Akureyri, hefur verið ráðinn stjórnandi Karlakórs Akureyrar-Geysis. Hjörleifur tekur við starfinu af Valmari
Väljaots sem hefur stýrt KAG undanfarin fimm ár. Valmar hefur ákveðið að snúa sér að frekara námi í orgelleik og óska
félagar í KAG honum velfarnaðar með bestu þökkum fyrir frábært samstarf!
Hjörleifur tók við stöðu skólastjóra Tónlistarskólans á Akureyri haustið 2008. Hann lauk burtfararprófi frá jassdeild
Tónlistarskóla FÍH árið 1993 og lék að námi loknu m.a. með Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit
Íslands. Árið 1999 hóf hann tónlistarnám við Amsterdam Conservatorium og var þar við nám í þrjú ár.
Árið 2007 lauk hann mastersnámi í slagverksleik og kennslufræðum við Hanns Eisler Hochschule für Musik í Berlín og vann að
því loknu sem einleikari með hljómsveitum og kammerhópum í Þýskalandi. Hjörleifur var skólastjóri Neue Musikschule í
Berlin á árunum 2006-2008 og framkvæmdastjóri Hypno leikhússins, sem sérhæfir sig í tónlistar- og leiksýningum fyrir börn og
unglinga. Þá hefur hann unnið að skipulagningu viðburða í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík auk
tónlistarhátíða í Þýskalandi.
Hjörleifur hefur sett svip sinn á tónlistarlíf á Norðurlandi undanfarin ár með samstarfi við fjölda þekktra tónlistarmanna. Auk
tónleikahalds sem einleikari á slagverk hefur hann m.a. leikið með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Þá er hann tónlistarstjóri
í útvarpsþáttunum vinsælu „Gestir út um allt“ sem sendir eru út á Rás 2 úr Menningarhúsinu Hofi. Þá
er Hjörleifur stjórnandi kórs Frímúrarareglunnar á Akureyri.
Félagar í Karlakór Akureyrar-Geysi telja mikinn feng að því hafa fengið Hjörleif til samstarfs við kórinn. Að fá svo vel
menntaðan og kraftmikinn stjórnanda er mikilvægt fyrir starf kórsins og miðað við hans hugmyndir og áherslur verður spennandi að vinna með
honum. Skarð Valmars verður ekki auðvelt að fylla, hann hefur unnið frábært starf undanfain fimm ár, en félagar í KAG telja Hjörleif
verðugan arftaka Valmars.