Dolfallnir yfir dósabjórnum!
Karlakórinn Jökull kom í heimsókn til okkar KAG-manna um helgina og saman áttum við frábæra daga. Jöklarnir komu beint í
Glerárkirkju, eftir barning í rysjóttu veðri, og þar beið eftir þeim súpa og brauð. Eftir næringarnám voru konurnar sendar í
óvissuferð (inn í jólahús) meðan við karlarnir mátuðum pallana og æfðum sameiginleg lög.
Tónleikarnir voru síðan um kvöldið. Eftir þá fórum við með gestakórinn um borð í Húna II, en hann var hér
á árum áður "búsettur" á Höfn og hét þá Haukaberg. Nokkrir bjórkassar og glæsilegar snittur biðu okkar allra þar
og Steini P. var tilbúinn með heilmikla myndasýningu í sjónvarpinu um borð. Voru þar gamlar myndir af Húna II meðal annars frá
Hafnar-árunum og var mikið fjör hjá Jöklum þegar þeir bentu á hvern sjómanninn á fætur öðrum og þekktu
þá flestalla.
Daginn eftir var farið í skoðunarferð um Viking-Brugg og síðan rútuferð um bæinn. Ný hverfi tekin út ásamt menningarhúsi og
Bónusverslun og sömuleiðis gömul gróin hverfi. Um hádegi var öllum skolað í miðbæinn og þaðan var svo farið á
Glerártorg. Seinni part laugardagsins voru svo Jöklar með tónleika á Dalvík. Ekki var vel mætt í sætin í kirkjunni þar, en
karlakór Dalvíkur var með langan æfingadag, sem ekki var hægt að hnika til.
Um kvöldið var haldin vorhátíð Karlakórs Akureyrar - Geysis og var karlakórinn Jökull okkar gestir þar. Frábært hlaðborð til
að byrja með, en síðan tóku við alls kyns skemmtiatriði frá báðum kórum, nokkur embættis-vor-verk hjá KAG, verðlaun og
viðurkenningar eins og til dæmis fyrir að vera duglegastur að syngja! Í lokin var svo dansleikur þar til formaður Jökla sagði tíma til kominn að
halda á hótel. Yndislegt kvöld sem var endapunktur á frábærri helgi. Jöklar, þið eruð velkomnir aftur hvenær sem er og við
hlökkum til að hitta ykkur næsta vor á miðri leið !!!