Karlakór Akureyrar-Geysir fór söngferð á Snæfellsnes 31.mars til 3. apríl 2023

Ólafsvíkurkirkja í skini milli skúra
Ólafsvíkurkirkja í skini milli skúra

Söngferð KAG á Snæfellsnes hófst á föstudegi 31.mars.   Í för voru 30 félagar og hópur af mökum.  Lagt var af stað með langferðabíl kl 15 og sat félagi kórsins Þorkell Már undir stýrinu.   Ekið var sem leið lá með lágmarksstoppum í Borgarnes - þar sem kjötsúpa var etin í Landnámssetrinu.    Í náttstað á Fosshótel Stykkishólmi var komið fyrir klukkan 22.    Hótelbarinn var opinn til klukkan 24.

Laugardag 1.apríl settist Jónas Sig undir stýrið og var ekið til Hellissands.  Þar heimsóttu félagar Sjóminjasafnið og fengu afar hlýlegar móttökur.    Við áttæring -  með seglabúnaði  -  sungu félagarnir Brimlendingu Áskels Jónssonar við ljóð Davíðs Stefánssonar -  en þar er lagt út af  drukknun 7 sjómanna sem fórust við landsteina einmitt á Snæfellsnesi.

Sungið var í Ólafsvíkurkirkju klukkan 14.   Ekki varð af stefnumóti við söngfélaga úr Karlakórnum Kára sem við höfðum vænst eftir.

Leiðin lá í Grundarfjörð þar sem sungið var í Grundarfjarðarkirkju.     Fámenni var á þessum tónleikum og má vissulega bollaleggja um að staðarmenn hafi etv. álitið að um væri að ræða "aprílgabb" og þess vegna ekki látið sjá sig.

Kvöldverður á hótelinu  í Stykkishólmi var snæddur með söng og tilheyrandi "kryddi" af ýmsu tagi.

Fyrripart sunnudags 2. apríl áttu ferðalangar frítíma og könnuðu flestir bæinn og næsta  nágrenni og áningarstaði sem reyndust viljugir til að taka á móti gestum.   

klukkan 15 voru tónleikar KAG í Stykkishólmskirkju.   

Að loknum tónleikum var "tilbrigði um árshátið" KAG á Narfeyrarstofu - þar sem uppistaða máltíðarinnar var sjávarfang og þeirra sérréttir.

Mánudaginn 3.apríl var haldið heim á leið og skiptust þeir Þorkell og Jónas á við aksturinn.   Allir komust heilir heim og var þetta hin besta æfingaferð. (Vert er að geta þess að þeir Magnús Ólafsson og Benedikt Sigurðarson deila afmæli þann 3.apríl ár hvert og svo var að þessu sinni.)

Formaðurinn