Karlakóraveisla í Miðgarði

Menningarhúsið Miðgarður í Skagafirði
Menningarhúsið Miðgarður í Skagafirði
Laugardaginn 12. október, halda Karlakór Kjalnesinga og Karlakór Akureyrar-Geysir tónleika í menningarhúsinu Miðgarði, Skagafirði.


Þarna koma saman tveir rótgrónir karlakórar í miklu menningarhéraði og flytja fjölbreytta dagskrá að norðan og sunnan. Kórarnir flytja hvor sína söngdagskrá og sameina svo krafta sína í nokkrum þekktum karlakórsperlum.

Báðir eiga kórarnir fjölbreyttan söngvetur framundan og því er við hæfi að hefja leikinn í Miðgarði og láta sönginn óma um Skagafjörð. Á efnisskránni eru íslensk og erlend verk úr fjölbreyttum sjóði kóranna, kröftug karlakórslög, léttar og ljúfar perlur, einsöngslög og fleira.

Tónleikarnir í Miðgarði hefjast klukkan 17:00 og nú er tilvalið að bregða sér af bæ, líta upp úr haustverkunum og eiga góða kvöldstund með síkátum söngmönnum af sitt hvoru landshorninu.

Miðaverð er kr. 2.500.-