Eftir hádegi var formleg setning mótsins. Þar voru flutt ávörp af fyrrverandi formanni Kötlu og forseta okkar, Ólafi Ragnari Grímssyni. Síðan hófst söngur þátttökukóra í tveimur húsum. Við sungum í félagsheimilinu fyrir fullu húsi, og þar var mættur forseti vor, Ólafur Ragnar. Tókst það með eindæmum vel og fengum við gríðar góðar undirtektir frá áheyrendum. Seinna sama dag var svo "Kötlukórinn" allur samankominn á pöllum í Límtréshúsinu og það er eitthvað sem gleymist seint. Alveg rosalegur kór, sem hægt er að finna á "youtube" syngjandi "Ár vas alda".
Þá bauð Karlakór Hreppamanna til kveðjuskálar í Íþróttahúsinu, meðan höllinni var breytt í veislusal. Þangað var farið aftur um hálf átta og allt orðið klárt fyrir framhaldið. Þar fluttu ýmsir ávörp og mikið var spjallað. Kristjana Stefáns kom og djassaði svolítið ásamt hljómsveit. Ný Kötlustjórn var kynnt, Jón Bjarnason veislustjóri og kynnir lét alla viðstadda blístra gamalt lag og forsetinn okkar var með allan daginn fram á kvöld. Formaður Sambands Íslenskra Karlakóra (Snorri Guð) hugleiddi nöfnin á samböndunum Heklu og Kötlu, Sæmdi aldnar hetjur úr röðum kórmanna æðsta heiðursmerki sambandsins, gullmerkinu og sagði í restina frá fyrirhuguðu SÍK-móti, sem hugsanlega gæti orðið í Hörpunni haustið 2012 eða 2013.
Þetta ferðalag okkar KAG-manna suður verður örugglega meðal þeirra minnisverðustu um langan tíma. Hreppamenn, hafið þökk fyrir alla ykkar vinnu og til hamingju með stórglæsilegt mót!!!