Davíð Stefánsson, skáld frá Fagraskógi, var fæddur 21. janúar 1895 og er 115 ára afmæli skáldsins því minnst í ár. Á sjálfan afmælisdaginn var vegleg dagskrá í Ketilhúsinu á Akureyri þar sem fram komu ýmsir listamenn. Þar á meðal Karlakór Akureyrar-Geysir. Verk Davíðs Stefánssonar eru stór hluti af viðfangsefnum KAG og ekkert starfsár kórsins er án laga við ljóð Davíðs.
Á þessu Davíðskvöldi í Ketilhúsinu söng kórinn fimm lög, við undirleik Aladár Rácz. Einkennislag KAG „Þú komst í hlaðið“ var að sjálfsögðu sungið, en textann samdi Davíð sérstaklega fyrir Karlakórinn Geysi, annan af tveimur forverum KAG. Lagið „Mamma ætlar að sofna“ æfðum við sérstaklega fyrir þetta kvöld og hvar er meira viðeigandi að syngja perluna „Sigling inn Eyjafjörð“ en á svona kvöldi. Stórvirkin tvö „Brimlending“ og „Brennið þið vitar“ voru einnig sungin við frábærar undirtektir!