Viðburðaríkt starfsár KAG hafið

Formaðurinn messar á fyrsta fundi
Formaðurinn messar á fyrsta fundi
Þá er nýtt starfsár Karlakórs Akureyrar-Geysis hafið og ljóst að öflugt og skemmtilegt starf er framundan næstu mánuði. Söngferð á suðvesturhornið, jólatónleikar, tónleikar í febrúar, vortónleikar og utanlandsferð.


Við hófum starfsárið, eins og oftast, með sameiginlegum fundi þar sem Þorsteinn formaður fór yfir starfið framundan. Þá mætti Jóna Fanney Svavarsdóttir, frá Eldhúsferðum, til að kynna og spjalla um væntanlega ferð okkar til Ítalíu í sumar. Ljóst er að það eru skemmtilegir mánuðir framundan, enda kórinn með margt á prjónunum.

Fyrsta verkefni kórsins verður að undirbúa söngferð í Mosfellsbæinn í nóvember,  en félagar okkar í Karlakórnum Stefni buðu okkur að taka þar þátt í söngmóti. Að því loknu hefst undirbúningur fyrir jólatónleika í Akureyrarkirkju á aðventunni. Í febrúar tekur kórinn svo þátt í tónleikum á Akureyri sem verða helgaðir tónsmiðnum Birgi Helgasyni. Vortónleikarnir verða auðvitað á sínum stað í lok maí. Að þeim loknum stefna kórfélagar og makar á söng- og skemmtiferð til Bolzano á Ítalíu í júní. 

Félagar í Karlakór Akureyrar-Geysi eru alltaf til í að taka á móti nýjum mönnum í kórinn. Þeir sem eru að velta fyrir sér söng í góðum félagsskap ættu endilega að slá til. Þá er um að gera að hafa samband við Þorstein Þ. Jósepsson, formann KAG, í síma 895 6405, eða senda honum tölvupóst á spori1@simnet.is.