Vortónleikar að baki

Jæja, þá eru okkar árvissu vortónleikar að baki og byrjuðum við á að flytja dagskrána í Hrísey, eða "Miðbænum", eins og sumir kalla eyjuna, eftir að Grímsey bættist í púkkið. Tónleikarnir voru haldnir í nýju fjölnota húsi eyjaskeggja og gengu vel. Skiptumst við félagarnir á að kynna lögin, en þegar Steini, starfsmaður hússins, steig upp og kynnti "Lóan er komin" vakti það mikla kátínu. Steini er þekktur fugla-áhugamaður og veit allt um lóuna ekki síður en rjúpuna.
Í hléinu buðum við upp á konfekt og eftir tónleika þáðum við kaffi í veitingahúsinu Brekku. Sumir könnuðu líka lítillega úrval hússins á bjór.
Laugardagurinn rann upp skír og fagur og hitinn sló alla leið í 20 stig. Ekki bjuggumst við við að fá marga á tónleika í svona blíðu, en annað kom í ljós. Tónleikarnir gengu afar vel og margir hrósuðu okkur eftirá. Þegar Valmar þakkaði fyrir annað eða þriðja uppklapp, sagði hann að honum fyndist að allir Íslendingar ættu að kunna tvö lög. Annað væri þjóðsöngurinn en hitt "Is it True", framlag Íslands í Evrovision-keppnina þetta árið. Settist stjórnandinn síðan við flygilinn og byrjaði að spila og við sungum "Is it True" eins og englar. Var það mjög skemmtilegt, því þá voru svona þrír tímar í að Jóhanna flytti lagið á sviði í Moskvu.
Eftir þessa tónleika var okkar eiginlega vetrarstarfi lokið, en þó eru enn eftir nokkur verkefni áður en menn geta alveg farið í fríið... Frábær vetur búinn og gaman verður að byrja aftur í haust...