Vortónleikar fyrir fullu húsi

Karlakór Akureyrar-Geysir á vortónleikum í Hömrum. Mynd: Tómas Guðmundsson
Karlakór Akureyrar-Geysir á vortónleikum í Hömrum. Mynd: Tómas Guðmundsson
Uppselt var á vortónleika KAG í Hofi í gær. Að þessu sinni var sungið í Hömrum, minni samkomusal Hofs. Kórinn fékk mjög góðar móttökur og ekki annað að heyra en tónleikagestir hafi skemmt sér hið besta. 


Tónleikarnir voru mjög fjölbreyttir og einblínt var á tímabilið 1930-1950. Flutt var rammíslensk tónlist, létt "Barber Shop" tónlist og norrænn vísnasöngur.

KAG-kvartettinn söng nokkur lög og einsöngvarar kórsins, þeir Þorkell Pálsson, Magnús Felixson, Jónas Þór Jónasson og Birgir Björnsson, heilluðu tónleikagesti með fögrum einsöng. Þá koma fram sértakur gestasöngvari; Gísli Rúnar Víðisson.

Jón Leifs er KAG-félögum sérlega hugleikinn á þessu vori. Hin átakamiklu og kröftugu Rímnadanslög tónskáldsins voru á meðal þess sem flutt var á tónleikunum. Íslensk rímnadanslög, ópus 11, eru safn rímnastefja sem Jón Leifs ýmist skráði eftir íslenskum kvæðamönnum eða samdi sjálfur. Kórútgáfa verksins er sjaldan flutt í heild sinni, en hún er í fjórum köflum; Hestavísur nr.1, Fuglavísur nr.2, Siglingavísur nr. 3 og Dýravísur nr. 4.

Vortónleikar KAG eru jafnan hápunktur starfsársins. Annar stór viðburður á þessu starfsári; 90 ára afmælistónleikar í Hofi í nóvember, rísa ennig hátt. Það er því óhætt að segja að þetta starfsár hafi verið glæsilegt hjá kórnum.