Einsöngvarar KAG fá sérstaklega að njóta sín á þessum vortónleikum og undirstrikar framlag þeirra breiddina í starfi kórsins.
Létt og skemmtileg „Barber Shop“ tónlist hljómaði gjarnan á þessum tíma og hluti af söngdagskrá tónleikanna ber keim af
því. Þar fá m.a. að hljóma fagrir ástarsöngvar eftir tónskáldin; Ed Haley, Geoffrey O´Hara og Con Conrad. Auk þess fær
söngleikjatónlistin sinn skerf. Norrænir vísnasöngvar frá þessum tíma munu einnig hljóma, sem og rammíslensk tónlist.
Jón Leifs er KAG-félögum sérlega hugleikinn á þessu vori. Hin átakamiklu og kröftugu Rímnadanslög tónskáldsins eru
á meðal þess sem flutt verður á tónleikunum. Íslensk rímnadanslög, ópus 11, eru safn rímnastefja sem Jón Leifs
ýmist skráði eftir íslenskum kvæðamönnum eða samdi sjálfur. Kórútgáfa verksins er sjaldan flutt í heild sinni, en
hún er í fjórum köflum; Hestavísur nr.1, Fuglavísur nr.2, Siglingavísur nr. 3 og Dýravísur nr. 4.
Starf Karlakórs Akureyrar-Geysis er hluti af merkri tónlistarsögu Akureyrar. Það birtist vel á 90 ára afmælistónleikum kórins í
Hofi í nóvember síðastliðnum. Á vortónleikunum horfa KAG-félagar áfram til sögunnar, en fyrst og fremst fá tónleikagestir
að njóta karlakórstónlistar eins og hún gerist best!