Gaman var að prófa að syngja í "Berginu", en fáir okkar höfðu komið þar inn áður. Þótti mönnum gott að syngja í þessu nýja húsi en Dalvíkingar hefðu mátt mæta betur á tónleikana. Seinni tónleikarnir okkar voru svo á heimavelli fyrir fleytifullri Glerárkirkju.
Að venju höfðum við lagt mikla vinnu í að gera söngskrána sem besta og var hún hin glæsilegasta. Var 9000 eintökum dreift um allan Eyjafjörð ásamt sjónvarpsdagskránni. Á tónleikunum var hún svo einnig afhent ásamt aðgöngumiða.Tónleikarnir sjálfir gengu afar vel og efnisskráin samanstóð af 17 lögum. Það nýjasta á efnisskránni var frumflutningur á þriggja laga syrpu eftir einn kórfélagann, Gunnar Halldórsson. Þá var einnig sungin syrpa af þýskum lögum í útsetningu Páls P. Pálssonar.
Einsöngvarar að þessu sinni voru þeir Erlingur Arason, Heimir Bjarni Ingimarsson og Jónas Þór Jónasson. Enginn nema Erlingur á að syngja "Hófatakið" hans Jóa Moráveks. Hann söng það inn á disk með karlakórnum Jökli á sínum tíma og passar flott í einsönginn. Jónas Þór og Heimir sungu hvor sitt erindið í "Sigling inn Eyjafjörð". Þegar Jóhann Ó. Haraldsson samdi lagið við texta Davíðs Stefánssonar, reiknaði hann með þessum tveimur einsöngsköflum og erum við farnir að fylgja því alla vega til hátíðabrigða. Heimir söng svo einnig sóló í "Dagnýju" hans Fúsa.
Önnur lög á efnisskránni voru úr ýmsum áttum, t.d.: Ölerindi, Sefur sól hjá ægi, Í grænum mó, Panis Angelicus (Palestrina), Eyðimörk, Þó þú langförull legðir, While strolling through the park, Steal away og Hermannakór úr Faust.
Valmar stjórnaði okkur og var með bara nokkuð vel skipulagða möppu að þessu sinni, enda fékk hann ekkert annað að gera en stjórna. Píanisti var Jaan Alavere og leysti sitt verkefni prýðilega. Ekki kannski gott að fara alveg í skóförin hans Valmars, enda sólókaflar hans afar breytilegir.
Þegar upp var staðið voru menn afar sáttir við afraksturinn, prógrammið nokkuð skothelt og betur æft en margir höfðu reiknað með. Góðum vetri lokað með þessari fínu söngskemmtun!
Og nú var bara klukkutími til að fara heim, skipta um föt og mæta eldhress í veisluna í Lóni...