28.12.2008
Félagar í Karlakór Akureyrar-Geysi óska öllum velunnurum sínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Vonandi
sjáum við sem flesta á tónleikum okkar á árinu 2009.
02.12.2008
Það er orðin hefð hjá KAG að safnast saman í Lóni að kvöldi 1. desember og borða saman hangikjöt með öllu tillheyrandi.
Þangað bjóðum við konum okkar, eldri kórfélögun og fleirum. Á undan fer kórinn og syngur fyrir vistmenn á Hlíð,
dvalarheimili aldraðra.
Hangikjötskvöldið tókst vel að þessu sinni, mikið borðað, sungið og hlegið.
01.12.2008
Styrktartónleikarnir fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar tókust afar vel. Húsfyllir var í Akureyrarkirkju og mikil og hátíðleg stemmning.
Kórarnir þrír; Kvennakór Akureyrar, Karlakór Akureyrar-Geysir og Söngfélagið Sálubót, fengu afar góðar móttökur
tónleikagesta.
26.11.2008
KAG verður í samstarfi við Kvennakór Akureyrar á jólatónleikum í Akureyrarkirkju næstkomandi sunnudag, 30. nóvember, kl. 16. Um
er að ræða árlega styrktartónleika Kvennakórsins fyrir Mæðrastyrksnefnd.
Fram koma: Kvennakór Akureyrar, Karlakór Akureyrar-Geysir, og Söngfélagið Sálubót.
Stjórnendur og undirleikarar: Jaan Alavere, Valmar Valjaots og Tarvo Nómm.
Miðaverð er 1.500 krónur, en frítt fyrir 12 ára og yngri. Allur ágóði af tónleikunum rennur óskiptur til
Mæðrastyrksnefndar.
20.11.2008
Karlakór Akureyrar-Geysir fékk það óvenjulega og skemmtilega verkefni í gær að hita upp fyrir heimaleik Akureyrar og Hauka í N1 deildinni
í handbolta. Meiningin var að blása handboltahetjunum og áhorfendum baráttu í brjóst með kröftugum
karlakórssöng! Vissulega sungum við karlarnir hraustlega en það dugði hinsvegar ekki til sigurs gegn Haukum, því okkar menn steinlágu fyrir
hafnfirsku hetjunum. Við KAG félagar erum þó sannfærðir um að söngurinn hjálpaði upp á stemmninguna, engin
spurning! Sjá myndir frá upphituninni
hér!
12.11.2008
Heklumót hið sautjánda var haldið á Húsavík laugardaginn 1. nóvember. Þátt tóku átta kórar, víðs vegar
að af sambandssvæðinu; Ernir, Bólhlíðingar, Heimismenn, Dalvíkingar, Eyfirðingar, KAG, Hreimur og Drífandi. Kórarnir mættu hver á
fætur öðrum og byrjuðu á að fá sér kaffi og hitta aðra kórmenn. Sameiginleg æfing hófst svo upp úr tíu. Valmar
hitaði menn upp og svo tók hver stjórnandinn við af öðrum.
19.10.2008
Laugardaginn 1. nóvember verður haldið Heklu-mót á Húsavík. Hekla, samband norðlenskra karlakóra stendur fyrir þessu móti fjórða hvert ár og er þetta hið sautjánda
í röðinni. Þessi mót eru algjör veisla fyrir áhugafólk um kórsöng. Hver kór fyrir sig syngur þrjú lög og
síðan syngja allir kórarnir saman fimm lög.
08.10.2008
Þessa dagana æfir KAG fyrir söngmót Heklu, Sambands norðlenskra karlakóra, sem haldið verður á Húsavík 1. nóvember
næstkomandi. Þangað hafa tíu kórar boðað komu sína, en reikna má með að 350 karlar hefji þar upp raust sína.
24.09.2008
Karlakórinn Þrestir er þessa dagana á söngferð um landið og tónleikar í höfuðstað Norðurlands eru að
sjálfsögðu á dagskrá! Þrestirnir syngja í Glerákirkju á sunnudaginn, 28. sept. og hefjast tónleikarnir klukkan 16:00. Karkakór
Akureyrar-Geysir ætlar að syngja fyrir félaga sína Þrestina og hefja tónleikana með nokkrum lögum!
15.09.2008
Það var vel mætt á fyrstu æfingu haustsins í kvöld. Ríflega 40 kallar mættu í Lón og nokkur ný andlit í
hópnum! Þetta lofar góðu fyrir veturinn, sem verður vonandi viðburðaríkur og skemmtilegur. Fyrsta stóra verkefni vetrarsins verður
Heklumót, norðlenskra karlakóra, sem haldið verður á Húsavík í nóvember.