02.11.2011
Í kvöld söng KAG á árlegum styrktartónleikum Aflsins, samtökum gagn kynferðis- og heimilisofbeldi. Fjöldi fólks var á
tónleikunum sem haldnir voru í Akureyrarkirkju. Margir listamenn komu þar fram og allir gáfu vinnu sína. KAG endaði prógrammið með
þremur lögum og rak endahnútinn á skemmtilegt kvöld með hressilegum Hermannakór úr óperunni Faust!
14.09.2011
Þá er nýtt starfsár KAG hafið og æfingar byrjaðar af fullum krafti. Margt spennandi er framundan hjá kórfélögum og ljóst
að þeim mun ekki leiðast næstu mánuðina! Meðal annars má nefna söng með Karlakór Hreppamanna, Frostrósatónleika, Hæ
Tröllum, Heklumót á Ísafirði, Vortónleika og magnaða Skotlandsferð næsta sumar!
10.09.2011
Kórinn var fenginn til að leiða fjöldasöng í beinni útsendingu á þætti Margrétar Blöndal og Felix Bergssonar "Gestir út um
allt" á Rás tvö sunnudaginn 28. ágúst. Formaðurinn var fenginn í viðtal og sagði meðal annars frá fyrsta söng í Hofi.
03.06.2011
Aðalfundur KAG var haldinn í Lóni mánudaginn 23. maí. Eins og lög gera ráð fyrir fóru fram "venjuleg aðalfundarstörf", skýrsla
formanns, skýrsla gjaldkera og féhirðis, kosningar í stjórn og fleira. Þá var rætt um Bretlandsferðina sem fyrirhuguð er á
næsta ári og auðvitað önnur mál.
17.05.2011
Komið er að hinum árlegu Vortónleikum Karlakórs Akureyrar-Geysis. Þeir verða í Glerárkirkju, laugardaginn 21. maí, klukkan 15.
Vortónleikarnir eru hápunktur starfsárs KAG, uppskera mikillar vinnu undanfarinna mánaða.
10.05.2011
Laugardaginn 14. maí tekur Karlakór Akureyrar-Geysir þátt í tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og
Tónlistarskólans á Akureyri í Hofi. 40 danskir hljóðfæraleikarar frá tveimur tónlistarskólum á
Kaupmannahafnarsvæðinu leika einnig á tónleikunum.
03.05.2011
Það er ekki venjan að KAG félagar klæði sig upp í smóking fyrir æfingar. Þannig var það nú samt á síðustu
æfingu, en tilefnið var myndataka. Kórinn var drifinn upp í rútu og keyrt með hann niður að Oddeyrarbryggju. Þar var Kristjana formannsfrú
mætt og smalaði hún kórnum á fyrirfram ákveðinn stað og smellti án afláts. Þaðan var ekið í Glerárkirkju og
tekin "stúdíómynd". Takk fyrir okkur Kristjana!
02.05.2011
Nú styttist óðum í hápunkt starfsársins; vortónleika KAG. Þeir verða 20. og 21. maí. Þessa tónleika hafa KAG félagar
undirbúið í allan vetur, í bland við fjölmörg önnur verkefni. Þau síðustu voru tónleikarnir með Heimi Bjarna 7. apríl og
stóru Björgvins tónleikarnir 10. apríl. Með vortónleikum og aðalfundi í kjölfarið lýkur starfsárinu formlega, þó
nokkur tilfallandi verkefni séu alltaf yfir sumartímann. Gleðilegt sumar!
19.03.2011
Félagar í Karlakór Akureyrar-Geysi stóðu vaktina, sem fyrr, og seldu mottur til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. Uppdressaðir í
smóking vöktu þeir verðskuldaða athygli og seldu grimmt. Sölustaður KAG var Bónus við Kjarnagötu og þegar æsingurinn var mestur, fengu
viðskiptavinir ekki að fara úr búðinni fyrr en þeir höfðu keypt mottu! Það segir sagan allavega...kannski var þetta ekki alveg svona!
14.03.2011
Heimir Bjarni Ingimarsson og Karlakór Akureyrar-Geysir koma fram á sameiginlegum tónleikum í Menningarhúsinu Hofi, fimmtudagskvöldið 7. apríl.
Fluttar verða aríur úr þekktum óperum og þekkt íslensk sönglög. Undirleikari verður Aladár Rácz. Tónleikarnir verða
í Hamraborg, stóra sal Hofs, og hefjast kl. 20.