Fréttir

KAG í söngferð um Austurland

Karlakór Akureyrar-Geysir heldur í söngferð um Austurland 17. og 18. apríl og syngur á tónleikum á Hornafirði og Egilsstöðum. Í ferðinni slæst KAG í för með félögum sínum í Karlakórnum Jökli á Hornafirði og Karlakórnum Drífanda á Fljótsdalshéraði.

Viðburðaríkt KAG vor í vændum

Nú standa sem hæst æfingar fyrir vordagskrá Karlakórs Akureyrar-Geysis. Það stendur mikið til enda fjöldi tónleika og annarra viðburða framundan. Vorið er viðburðaríkasti tími kórsins og æfingar hafa staðið í allan vetur.

Velheppnuð árshátíð KAG

Árshátíð KAG var haldin í Lóni laugardaginn 7. mars og heppnaðist alveg stórvel! Maturinn var góður, hver rödd sá um að skemmta öllum hinum og svo var dansað fram á rauða nótt!

Heklusöngur númer tvö

Um miðja síðustu öld var haldin samkeppni um lag við texta Jónasar Tryggvasonar: Heklusöngur. Hekla er samband norðlenskra karlakóra. Vinningslagið var eftir Áskel Snorrason, en fast á hæla þess kom lag Jóhanns Ó. Haraldssonar. Lagið hefur aðeins einu sinni verið flutt á þessum næstum sextíu árum. KAG ætlar á þessari önn að skoða þetta lag og svona leyfa fólki að fá fleiri sjónarhorn á Heklusönginn.

Æfingar hafnar á nýju ári

Þá er allt komið á fullt hjá KAG eftir jólafrí. Fullt af nýjum lögum komin á dagskrá og eldri lög rifjuð upp. Næstu mánuðir verða viðburðaríkir og ná væntanlega hámarki á vortónleikum KAG.

Gleðileg jól og gæfuríkt nýtt ár!

Félagar í Karlakór Akureyrar-Geysi óska öllum velunnurum sínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Vonandi sjáum við sem flesta á tónleikum okkar á árinu 2009.

Vel heppnað hangikjötskvöld

Það er orðin hefð hjá KAG að safnast saman í Lóni að kvöldi 1. desember og borða saman hangikjöt með öllu tillheyrandi. Þangað bjóðum við konum okkar, eldri kórfélögun og fleirum. Á undan fer kórinn og syngur fyrir vistmenn á Hlíð, dvalarheimili aldraðra. Hangikjötskvöldið tókst vel að þessu sinni, mikið borðað, sungið og hlegið.

500 þúsund krónur fyrir Mæðrastyrksnefnd

Styrktartónleikarnir fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar tókust afar vel.  Húsfyllir var í Akureyrarkirkju og mikil og hátíðleg stemmning. Kórarnir þrír; Kvennakór Akureyrar, Karlakór Akureyrar-Geysir og Söngfélagið Sálubót, fengu afar góðar móttökur tónleikagesta.

Jólatónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefnd

KAG verður í samstarfi við Kvennakór Akureyrar á jólatónleikum í Akureyrarkirkju næstkomandi sunnudag, 30. nóvember, kl. 16. Um er að ræða árlega styrktartónleika Kvennakórsins fyrir Mæðrastyrksnefnd. Fram koma: Kvennakór Akureyrar, Karlakór Akureyrar-Geysir, og Söngfélagið Sálubót. Stjórnendur og undirleikarar: Jaan Alavere, Valmar Valjaots og Tarvo Nómm.  Miðaverð er 1.500 krónur, en frítt fyrir 12 ára og yngri. Allur ágóði af tónleikunum rennur óskiptur til Mæðrastyrksnefndar.

Handknattleiksdeild KAG

Karlakór Akureyrar-Geysir fékk það óvenjulega og skemmtilega verkefni í gær að hita upp fyrir heimaleik Akureyrar og Hauka í N1 deildinni í handbolta. Meiningin var að blása handboltahetjunum og áhorfendum baráttu í brjóst með kröftugum karlakórssöng! Vissulega sungum við karlarnir hraustlega en það dugði hinsvegar ekki til sigurs gegn Haukum, því okkar menn steinlágu fyrir hafnfirsku hetjunum. Við KAG félagar erum þó sannfærðir um að söngurinn hjálpaði upp á stemmninguna, engin spurning!  Sjá myndir frá upphituninni hér!